Föstudagur 16. maí 2025
Heim Blogg Síða 2114

Gjafahugmyndasíðan Bello

Tinna Hrund Hlynsdóttir Ísfirðingur hefur hleypt af stokkunum vefsíðu þar sem nálgast má leiðbeiningar um gjafakaup, enda getur svo sannarlega vafist fyrir mörgum að finna réttu gjöfina. Tinna segir að bello.is sé hugmyndabanki fyrir alla sem vantar að finna góðar hugmyndir af gjöfum fyrir hvaða tilefni sem er.

Hugmyndina hefur Tinna haft í maganum lengi og alltaf haft sérstaklega gaman af því að finna fallegar gjafir, því „gjöf er ekki það sama og gjöf, sjáðu til“ segir Tinna.

Á bello.is eru gjafir bæði flokkaðar eftir tilefnum og verðflokkum og ætti að geta hjálpað mörgum sem glíma við hugmyndaleysi eða tímaleysi þegar kaupa þarf réttu gjöfina.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Hestamennska í skammdeginu

Miðflokkurinn, með hestinn í fararbroddi, er nú á fullu að undirbúa sveitarstjórnarkosningar í vor, eins og bb.is skýrir frá. Af því tilefni er rétt að rifja upp eina söguna í 100 Vestfirskar gamansögur, Rauða kverinu. Þar segir á launfyndinn hátt frá hestamennsku framsóknarmanna í bæjarstjórnarmálum í Ísafjarðarbæ forðum. Íslenski hesturinn kemur sífellt  á óvart.

„Sigurður Sveinsson frá Góustöðum í Skutulsfirði, Siggi Sveins, var í meira en hálfa öld einn helsti burðarás Framsóknarflokksins á Ísafirði. Framsóknarflokkurinn átti um þrjátíu ára skeið einn fulltrúa í bæjarstjórninni og oft stóð tæpt með hann.

Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1998 spurði Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Ísafirði Sigga, sem var bjartsýnismaður í pólitík, hvernig hann teldi að Maddömunni gengi núna í kosningunum. Siggi svarar strax að þeir muni fá einn mann kjörinn.

Efasemdar- og undrunarsvipur kom þá á sýsla og Siggi bætti við:

Okkur gengur alltaf vel og fáum alltaf einn mann kjörinn, á hverju sem gengur.

Svo fannst Sigga að sýsli efaðist enn og bætti við:

Við gætum sett hest í fyrsta sætið og fengið hann kosinn.“

Hallgrímur Sveinsson.

Auglýsing

Aukin framlög til heilbrigðistofnana á landsbyggðinni

Framlög til heilbrigðisstofnana í heilbrigðisumdæmum landsins verða aukin um 6,8% á næsta ári. Heildaraukningin nemur tæpum 1,5 milljarði króna. Þetta kemur fram í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins. Framlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands verða aukin um 7,4%, Heilbrigðisstofnun Norðurlands fær 6,9% aukningu, Heilbrigðisstofnun Austurlands 6,2%, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 5,3% og Heilbrigðisstofnun Vesturlands fær aukin framlög sem nema 4,3%. Til samanburðar nemur hlutfallsleg aukning til Landspítalans sem er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús 8,2%. Sjúkrahúsið á Akureyri sem einnig gegnir hlutverki á landsvísu sem sérgreinasjúkrahús og kennslusjúkrahús fær aukin framlög sem nema 4,2%.

Áhersla er lögð á að efla tækjabúnað stofnananna og verða þeim veittar samtals 223 milljónir króna til tækjakaupa sem er 200 milljónum kr. meira en í fjárlögum þessa árs. Framlög til sjúkraflutninga verða einnig aukin og nemur viðbótin 124 milljónum kr. eða 5,3%.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir mikilvægt þegar rætt er um framlög til heilbrigðisþjónustu eftir landsvæðum að hafa í huga hlutverk stofnananna og þjónustuna sem þær veita. Landspítalinn gegni veigamiklu hlutverki á landsvísu og veiti ýmsa afar sérhæfða þjónustu sem verði ekki með neinu móti veitt annars staðar: „Ef Landspítalinn fær ekki sinnt þessu hlutverki sínu vegna álags af því að útskriftarvandi stendur sérhæfðu þjónustunni fyrir þrifum er það vandamál okkar allra, hvar sem við búum,“ segir Svandís. Í þessu ljósi hafi verið ákveðið að veita umtalsverðum fjármunum til að mæta útskriftarvanda spítalans sem meðal annars megi rekja til þess hve mikill skortur er á hjúkrunarrýmum og þá einkum á höfuðborgarsvæðinu.

smari@bb.is

Auglýsing

Miðflokkurinn býður fram í sveitarstjórnarkosningunum

Miðflokk­ur­inn er far­inn að huga að und­ir­bún­ingi fram­boða í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­un­um á næsta ári. Ekki ligg­ur fyr­ir hve víða verður boðið fram. „Það er verið að vinna að stofn­un kjör­dæm­a­fé­laga og sveit­ar­stjórn­ar­fé­laga víða um land sem munu leiða vinnu við und­ir­bún­ing fram­boða til sveit­ar­stjórna,“ seg­ir Svan­ur Guðmunds­son, sem var kosn­inga­stjóri flokks­ins í síðustu kosn­ing­um, í Morg­un­blaðinu í dag.

Í þing­kosn­ing­un­um í haust fékk Miðflokk­ur­inn 10,87% at­kvæða á land­inu öllu og sjö þing­menn kjörna.

smari@bb.is

Auglýsing

Vegagerðin undirbýr framkvæmdir í Djúpinu

Vegurinn í Seyðisfirði er einbreiður á köflum.

Vegagerðin hefur hafið kynningarferli á framkvæmdum á Djúpvegi 61 í  Hestfirði, Seyðisfirði og í Álftafirði í Súðavíkurhreppi. Í framkvæmdinni felst endurbygging og nýbygging á um 7 km löngum vegkafla frá Leiti í Hestfirði að Eyri í Seyðisfirði og nýbygging á um 2,2 km löngum vegkafla á Djúpvegi um Hattardalsá í austanverðum Álftafirði með byggingu nýrrar brúar á Hattardalsá sem verður talsvert neðar en núverandi brú sem er einbreið.

Í kynningarskýrslu kemur fram að áætlað er að hefja vegagerð í Hest- og Seyðisfirði sumarið 2018, eða þegar öll tilskilin leyfi liggja fyrir. Verklok er áætluð haustið 2019. Kostnaður við framkvæmdina er um 600 milljónir. Í vegáætlun 2015-2018 er gert ráð fyrir 150 milljónum kr. til verksins árið 2018 og 450 milljónum kr. árið 2019.

Ekki er vitað hvenær bygging nýs vegar og brúar á Hattardalsá mun fara fram en gert er ráð fyrir að það geti í fyrsta lagi orðið árið 2020. Heildarkostnaður við þá framkvæmd er áætlaður um 230 milljónir kr. Fjárveitingar samkvæmt langtímaáætlunum fyrir byggingu brúar á Hattardalsá eru áætlaðar á árunum 2019-2023.

Gula línan er núverandi veglína og brú en rauða línan sýnir nýjan veg og nýtt brúarstæði.

smari@bb.is

Auglýsing

Jólablaðið á leið í lúgurnar

Nú er feitt og fallegt jólablað Bæjarins besta á leið í lúgur heimila á norðanverðum Vestfjörðum, það tileinkað börnum enda eru jólin hátíð barnanna. Í blaðinu eru fullt af myndum af vestfirskum börnum, sögur þeirra, sjónarhorn og skoðanir. Þau eru frumleg, fordómalaus og klár. Vonandi hafa lesendur sömu ánægju af lestrinum eins og ritstjórinn hafði af tilbúningi þess.

Hér má nálgast rafræna útgáfu af blaðinu.

Nú leggst Bæjarins besta aftur í vetrarhýði en kemur aftur með hækkandi sól. Þangað til stendur vefurinn vaktina og segir ykkur fréttir af okkur.

Bryndis@bb.is

Auglýsing

Bæjarins besta 28. tbl. 34. árgangur

Auglýsing

Vetrarsólstöður í dag

Vetrarsólstöður verða klukkan 16:28 í dag 21. desember. Þá er stysti dagur ársins á norðurhveli jarðar. Sólin er þá syðst og lægst á himinhvolfinu, dagurinn stystur en nóttin lengst fyrir íbúa á norðurhveli. Á Ísafirði rís sólin kl. 12:09 en sest kl. 14:51 svo fullrar birtu nýtur í tæpar þrjár klukkustundir. Á morgun lengist dagurinn um 11 sekúndur en dagurinn lengist hraðar þegar á líður.

Eins og nafnið bendir til þá eiga vetrarsólstöður sér andsvar í sumarsólstöðum. Þessar hátíðir hafa reyndar notið minni virðingar í seinni tíð borgarmenningar þar sem tengslin við náttúruna hafa minnkað. En þeir sem lifa í tengslum við náttúruna eru mjög meðvitaðir um þessa póla á hringferli ársins. Við hér á Íslandi erum líka nákomin þeim þar sem þeir tákna hámark skammdegisins og hinn endalausa dag sumarsins.

smari@bb.is

Auglýsing

Ferðalangar fylgist vel með veðurspám

Það verður suðvestanátt 10-15 m/s á Vestfjörðum í dag.  Hiti undir frostmarki og éljagangur en hlánar seint í kvöld, einkum á láglendi, og fer að rigna í nótt, fyrst á sunnanverðum Vestfjörðum.

Dýpkandi lægð við Hvarf ýtir til landsins hitaskilum sem ganga upp að suðurströnd landsins í kvöld. Í dag dregur því úr éljahryðjunum vestantil, en norðan og austanlands er hæglætis veður í dag. Í kvöld ganga skilin inn á sunnanvert landið með suðaustan hvassviðri og rigningu eða slyddu, en sjókomu til fjalla. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að líklega tekur snjóinn suðvestanlands upp, en þó þarf ekki að örvænta um rauð jól því á föstudag og á Þorláksmessu snjóar líklega í flestum landshlutum áður en vindur snýst til norðanáttar og það fer að snjóa norðan og austanlands en létta til sunnan jökla.

Ferðaveður á milli landshluta er nokkuð breytilegt næstu daga og því ærin ástæða til að fylgjast mjög vel með veðri, viðvörunum og ástandi vega.

smari@bb.is

Auglýsing

Langtímaáætlun verði gerð um veiðistjórnun

Umhverfisstofnun hyggst á næstunni hefja vinnu við gerð langtímaáætlunar líkt og í Svíþjóð með það að markmiði að koma á aukinni sátt hjá þeim sem nota og njóta náttúru á Íslandi.  Stofnunin telur einnig mikilvægt að gerð sé áætlun fyrir hverja veiðitegund sem stuðlar að sjálfbærum veiðum.

Í nóvember hélt Umhverfisstofnun fjölmenna og vel heppnaða ráðstefnu þar sem fjallað var um veiðistjórnun í sátt við samfélag og náttúru. Kynnt var stefnumótunarvinna við veiðistjórnun í Svíþjóð. Í fyrirlestri frá sérfræðingum Svía kom fram að til að geta notið náttúruauðlinda þarf að umgangast þær af skynsemi. Markmiðið hér á landi er af sama toga, að við Íslendingar og komandi kynslóðir fáum jöfn tækifæri til sjálfbærrar nýtingar. Gott samstarf mill þeirra sem vakta náttúruna, þeirra sem stýra veiðiálagi og notenda er lykilatriði. Til að samstarfið gangi sem best þarf að ná einhverri sameiginlegri sýn með samtali þessara aðila.

Sérfræðingar frá AEWA fjölluðu um stjórnunaráætlanir gæsa í Evrópu, þar sem sérstaklega er horft til heiðagæsa. Farið var yfir ástæður þess að farið var í gerð slíkra áætlana og með hvaða hætti staðið var að þeim. Heiðagæsastofninn sem fer um Noreg og Danmörku telur um 90.000 fugla. Í samvinnu við Holland og Belgíu hefur verið ákveðið að reyna að ná stofninum niður í 60.000 fugla. Sá stofn heiðagæsa sem fer um Ísland er talinn vera um 500.000 fuglar.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir