Langtímaáætlun verði gerð um veiðistjórnun

Umhverfisstofnun hyggst á næstunni hefja vinnu við gerð langtímaáætlunar líkt og í Svíþjóð með það að markmiði að koma á aukinni sátt hjá þeim sem nota og njóta náttúru á Íslandi.  Stofnunin telur einnig mikilvægt að gerð sé áætlun fyrir hverja veiðitegund sem stuðlar að sjálfbærum veiðum.

Í nóvember hélt Umhverfisstofnun fjölmenna og vel heppnaða ráðstefnu þar sem fjallað var um veiðistjórnun í sátt við samfélag og náttúru. Kynnt var stefnumótunarvinna við veiðistjórnun í Svíþjóð. Í fyrirlestri frá sérfræðingum Svía kom fram að til að geta notið náttúruauðlinda þarf að umgangast þær af skynsemi. Markmiðið hér á landi er af sama toga, að við Íslendingar og komandi kynslóðir fáum jöfn tækifæri til sjálfbærrar nýtingar. Gott samstarf mill þeirra sem vakta náttúruna, þeirra sem stýra veiðiálagi og notenda er lykilatriði. Til að samstarfið gangi sem best þarf að ná einhverri sameiginlegri sýn með samtali þessara aðila.

Sérfræðingar frá AEWA fjölluðu um stjórnunaráætlanir gæsa í Evrópu, þar sem sérstaklega er horft til heiðagæsa. Farið var yfir ástæður þess að farið var í gerð slíkra áætlana og með hvaða hætti staðið var að þeim. Heiðagæsastofninn sem fer um Noreg og Danmörku telur um 90.000 fugla. Í samvinnu við Holland og Belgíu hefur verið ákveðið að reyna að ná stofninum niður í 60.000 fugla. Sá stofn heiðagæsa sem fer um Ísland er talinn vera um 500.000 fuglar.

smari@bb.is

DEILA