Laugardagur 27. júlí 2024

Stuttnefja

Stuttnefja er fremur stór svartfugl sem svipar mjög til langvíu. Á sumrin er hún svört að ofan en hvít að neðan, síður hvítar án ráka. Hvítir jaðrar armflugfjaðra mynda ljósa rák á aðfelldum væng. Á veturna teygist hvítur litur bringunnar upp á kverk. Kynin eru eins.

Fluglag og hegðun eru í grundvallaratriðum eins og hjá langvíu. Stuttnefja er best greind frá langvíu á hvítum síðum, dekkri lit að ofan, styttri og þykkari goggi með hvítri goggrönd, brattara enni og kantaðri kolli og á veturna á hvítum vöngum. Höfuðlag er annað en á álku, auk þess er stuttnefja hálslengri og stélstyttri. Hún flýgur með kýttan háls og er fimur kafari. Er afar félagslynd.

Stuttnefja kafar eftir fæðunni og knýr sig áfram með vængjunum neðansjávar líkt og aðrir svartfuglar. Aðalfæðan er loðna, en tekur einnig síli, síld, annan smáfisk, ljósátu og marflær.

Af vefsíðunni fuglavefur.is

Þingeyringar fengu lax frá Arctic Fish

Laxeldisfyrirtækið Arctic Fish sem ásamt dótturfyrirtækjunum Arctic Smolt, Arctic Sea Farm og Arctic Odda starfar vítt og breytt um Vestfirði segir frá því á facebooksíðu sinni í gær að það hafi gefið Dýrfirðingum lax sem þeir hafi kunnað vel að meta.

„Matvælastofnun hefur ýmiskonar eftirlit með eldisfyrirtækjum. Eitt af því sem að þau vilja kanna er kynþroskastig fiskins okkar.

Til að til að kanna kynþroska verður að aflífa fiska, taka út kynkirtla og vega þá. Í gær fór þessi rannsókn fram og stýrðu starfsmenn Blás Akurs aðgerðinni. Tekin voru sýni af 133 fiskum með meðalþyngd um 4kg sem er fyrirtaks matfiskur.

Ekki vildum við láta þá fara til spillis og starfsfólkið okkar í Dýrafirði tók sig til og bauð Þingeyringum upp á þessi flottu laxaflök sem að Rafal okkar hafði flakað.

Þetta virðist hafa farið vel í íbúana og má sjá á samfélagsmiðlum myndir af gómsætum laxaréttum sem voru á boðstólum á Þingeyri í gær.“

Ólöglegt bleikiefni í hveiti og framleiðslugalli á safa

Matvælastofnun vill upplýsa neytendur um innköllun á tveimur tegundum af United flour hveiti frá Thailandi sem fyrirtækin Fiska.is og Dai Phat flytur inn vegna þess að það inniheldur ólöglegt aukefni benzólý peroxíð. Fyrirtækin hafa í samráði við Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur innkallað vöruna.

Tilkynningarnar bárust til Matvælastofnunar í gegnum RASFF evrópska hraðviðvörunarkerfið. 

Innköllunin á við allar dagsetningar og framleiðslulotur.

Neytendur sem keypt hafa vöruna er bent að neyta hennar ekki, farga eða fara með hana í verslunina og fá endurgreitt.

Þá segir Matvælastofnun einnig frá því að Innnes ehf. hafi að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur stöðvað sölu og innkallað frá viðskiptavinum Beutelsbacher Epla- og Gulrótarsafa (750 ml) þar sem galli við framleiðslu veldur vexti mjólkursýrubaktería þannig að drykkurinn gerjast.
Innköllunin einskorðast við þær vörur sem merktar eru með dagsetningunni 01.03.26. 

Guðni Th sæmdur gullmerki á tindi Glissu í Árneshreppi

Guðni Th. Jó­hann­es­son for­seti Íslands var sæmd­ur gull­merki Ferðafé­lag Íslands fyr­ir fram­lag sitt til mál­efna vegna lýðheilsu og úti­vist­ar í heimsókn sinni í Árneshrepp fyrr í þessum mánuði.

For­set­inn hef­ur tekið þátt í mörg­um viðburðum Ferðafé­lags Íslands á embætt­istíð sinni og lagt sitt lóð á vog­ar­skál­arn­ar til að auka áhuga þjóðar sinn­ar á heil­brigðum lífs­hátt­um og úti­vist er sagt í til­kynn­ing­unni Ferðafélagsins.

Páll Guðmunds­son fram­kvæmda­stjóri FÍ sæmdi Guðna merk­inu á tindi Glissu í Árnes­hreppi.

Tónleikar í Gallerí Úthverfu í dag

Föstudaginn 26. júlí kl. 16 – 17 verða haldnir tónleikar á sýningu Spessa – FAUK – í Úthverfu, Aðalstræti 22. Tilvalið að kíkja við á milli tveggja viðburða: markaðsdags í Dokkunni og opnunar á sýningunni TVEIR VITAR í Edinborg.

Morjane Ténéré er söngkona og lagasmiður innblásinn af þjóðlagatónlist, blús, tónlist frumbyggja Ameríku or þjóðlegri tónlist frá Norður-Afríku. Hún hefur haldið yfir tvöhundruð tónleika um alla Evrópu. Nafnið hennar, Ténéré, þýðir eyðimörk á máli Túarega. Frumefnin – vatn, eldur, jörð og loft – eru rauði þráðurinn í lögunum hennar og tónlistin ber keim af helgisiðum, hún er bæði ferðalag og upphaf. Rödd hennar mun fá þig til að gráta.

Með henni spilar fransk-íslenski tónlistarmaðurinn Christian Helgi á trommur, gítar og píano

Knattspyrna: Vestri fær FH í heimsókn

Á morgun kl 14 mætir Vestri á Kerecis vellinum á Torfnesi FH frá Hafnarfirði í Bestu deildinni.

FH hefur átt gott tímabil í sumar og er liðið í 4. sæti deildarinnar eftir 15 umferðir með 25 stig. Hefur liðið unnið 7 leiki, gert 4 jafntefli og tapað einungis 4 leikjum.

Vestri er í 11. sæti með 12 stig aðeins tveimur stigum á eftir KR og HK. Í síðasta leik sótti Vestri HK heim í Kópavoginn og gerði ágætt jafntefli.

Í þeim leik voru veikindi og meiðsli að hrjá leikmannahóp Vestra. Andri Rúnar Bjarnason var veikur og Pétur Bjarnason meiddur. Á móti kom að danski miðvörðurinn Gustav Kjeldsen var kominn á varamannabekkinn mun fyrr en búist var við eftir að hafa slitið hásin í vetur.

Samúel Samúelsson segir að Andri Rúnar sé búinn að ná sér, fyrirliðinn Elmar Garðarson einnig og Fatai sé kominn úr leikbanni. „Það er baráttuhugur í okkar mönnum og liðið er staðráðið í því að ná í sinn fyrsta sigur á Kerecis vellinum á morgun.“

Listahátíð Samúels 2024

Sólveig Ólafsdóttir var með sögugöngu. Myndir: Ólafur Jóhann Engilbertsson.

Listahátíð Samúels var haldin að Brautarholti í Selárdal á vegum Félags
um listasafn Samúels helgina 19.-21. Júlí og sóttu hátíðina hátt í 50 manns.

Guðni Rúnar Agnarsson var með Samúelsmessu í kirkjunni á föstudagskvöldinu og í kjölfarið var Elfar Logi Hannesson var með leiðsögn að Uppsölum þar sem Þorberg Ólafsson sagði frá heyskap með Gísla.

Sólveig Ólafsdóttir leiddi sögugöngu í Verdali á laugardeginum og flugdrekasmiðja og keppni var þá einnig í boði. Loji Höskuldsson og Þorvaldur Jónsson opnuðu sýninguna Á leiðarenda í listasafninu um miðjan dag á laugardeginum.

Á þessu ári eru 140 ár frá fæðingu Samúels og var sagt frá ævi Samúels og sýnd var í kirkjunni kvikmynd Kára G. Schram og Ólafs J. Engilbertssonar Steyptir draumar.

Krummi Björgvins, Skúli mennski komu fram í kirkjunni auk þess sem Einar Már Guðmundsson var þar með sögustund og Kraftgalli var með dj-sett.

Elfar Logi var með leiðsögn að Uppsölum.

Verðlaunahafar í flugdrekakeppni.

Vikuviðtalið: Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir

Ég hélt ég væri borgarbarn í húð og hár! Ólst upp á höfuðborgarsvæðinu og átti dásamlega æsku á malbikinu. Ég flakkaði töluvert milli; sveitarfélaga, hverfa og skóla og græddi á því mjög góða aðlögunahæfni sem ég er mjög þakklát fyrir. Með því kynntist ég fjölbreyttum kennsluháttum og kynntist mörgum krökkum. Sem barn var ég félagslynd og var fljót að eignast vini.Ég hef því alltaf átt auðvelt með að kynnast fólki og mér finnst gaman að ræða hin ýmsu mál og fá sýn annarra. Ég lauk minni grunnskólagöngu í Foldaskóla í Grafarvogi og held ennþá sambandi við nokkrar vinkonur úr þeim skóla. Eftir grunnskólagönguna fannst mér mikilvægara að fara vinna fyrir mér og mátti því menntaskólinn bíða betri tíma. Hef ég unnið hin ýmsu störf og hefur vinnumarkaðurinn verið mín helsta reynsla til félagslegra samskipta, sérstaklega þegar ég hef starfað við þjónustustörf.

Þetta er kannski týbísk saga um stelpu hittir strák! Hann var bóndi í Þjóðólfstungu með kýr og kindur, hún borgarstelpa sem vann á lager við afgreiðslustörf. Ég var ekki lengi að taka ákvörðun, flutti vestur til hans tæplega 22 ára og fór að mjólka beljur, meira sveitó gat það ekki orðið fyrir borgarbarnið. Fann fljótlega að enginn vafi var á því að ég er landsbyggðartútta. Í dag lít ég á mig sem mikinn Bolvíking!  Víkin er eitt fallegasta bæjarstæði landsins og ekki að furða að hér hef ég ílengst.

Kollféll ég fyrir bóndanum Sigurjóni Sveinssyni, giftist honum og eignaðist með honum tvo drengi; Svein Gretti og Guðbjörn Sölva sem núna eru 21 og 17 ára. Eru þeir mitt stærsta afrek og stoltari gæti ég ekki verið af þeim, því yndislegri einstaklingar eru vandfundnir. Besti tíminn er þegar við sitjum við kvöldmataborðið og förum yfir daginn okkar. Oftast er mikið hlegið og grínast.

Árið 2006 brugðum við svo búi og fluttum niðrí bæ, hófum að mennta okkur og fjölga mannkyninu. 

Með baráttu minni fyrir auknu framboði á fjarnámi, gat ég menntað mig og aflað mér þekkingar og reynslu í því fagi sem mig dreymdi um. Ef hugsjónin er til staðar þá sækir maður fram og með stuðningi góðs fólks þá útskrifaðist ég með BA gráðu í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2016. Hef ég unnið með börnum og í velferðarmálum síðan sem er málaflokkur sem ég brenn fyrir. Ég hef einnig síðustu ár sótt ýmis námskeið sem aukið hafa þekkingu mína á málefnum barna. Síðustu 5 ár vann ég sem ráðgjafi Virk á Vestfjörðum. Á vordögum vatt ég kvæði mínu í kross og hóf starf hér í Bolungarvík sem málstjóri farsældar barna.  Þar starfa ég við að samþætta þjónustu barna á milli menntastofnanna, félagsþjónustu og fjölskyldna sem myndar heilstæða umgjörð. Starf sem er í senn áhugavert, krefjandi og mikilvægt.

Börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum. Rannsóknir sýna því miður aukningu á notkun þunglyndis- og kvíðalyfja hjá ungu fólki og er það verulegt áhyggjuefni að börnunum okkar virðist ekki líða vel. Með innleiðingu nýju farsældarlaganna árið 2022 hófst vegferð með það að markmiði að halda betur utan um börn og ungmenni, veita þeim stuðning og auka hamingju þeirra. Þar er lögð áhersla á að grípa inn strax, vinna að lausn og koma í veg fyrir að vandinn aukist. Ég hef fulla trú á því að okkur takist að snúa þessari þróun við.

Ég hef mikinn áhuga á samfélagsmálum og er ég í dag formaður bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar, sem bæjarfulltrúi vinn ég með góðum hópi fólks sem stuðlar að betra samfélagi í bænum okkar. Einnig sinni ég ýmsum nefndar- og stjórnarstörfum af miklum metnaði og áhuga. Það er magnað að horfa á uppbygginguna sem átt hefur sér stað í Bolungarvík síðustu ár. Miklar framkvæmdir og endurbætur hafa orðið ásamt bættum rekstri bæjarins sem þakka má metnaðarfullu starfs- og forstöðufólki í hverju sæti. Það er svo sannarlega ekki sjálfgefið. Það hefur einkennt Bolungarvík að hér býr duglegt og kraftmikið fólk sem vill samfélaginu og samferðarfólki sínu vel. Ég er verulega stolt af samfélaginu okkar og mér þykir vænt um að vera partur af því.  

Náttúran hérna fyrir vestan er einstök og veit ég fátt skemmtilegra en að vera úti í náttúrunni, ganga á fjöll, hjóla og vera með fólkinu mínu í útilegu. Við erum líka með nokkrar kindur í Meiri-Hlíð og það er gaman að njóta samverunnar með fjölskyldunni í kringum verkefnin sem snúa að því; sauðburður og smalamennskur eru hápunktar þar. Það er líka mikilvægt að skora á sig og er ég nýkomin heim úr göngu með Birnu Hjaltalín bestu vinkonu minni, við gerðum okkur lítið fyrir og þrömmuðum yfir Fimmvörðuháls!  Krefjandi ganga en jafn skemmtileg í góðum félagsskap og í góðu veðri sem ég var svo heppin að njóta. Frá borgarbarninu í sveitarstelpuna, malbikið mótaði mig og landbyggðin tók við mér og hefur gefið mér tækifæri til að kynnast ástinni, ala börnin mín, mennta mig. Saman hafa þessi ólíku umhverfi gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég gæti ekki verið þakklátari með lífið.

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, landsbyggðartútta og Bolvíkingur.

Vesturbyggð: laun bæjarstjóra 1,9 m.kr. á mánuði

Gerður Björk Sveinsdóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur staðfest ráðningarsamning við Gerði Björk Sveinsdóttur, nýráðinn bæjarstjóra.

Hún er ráðin til fyrsta fundar bæjarstjórnar eftir næstu bæjarstjórnarkosningar sem verða 2026. Fram að því er þriggja mánaða gagnkvæmur uppsagnarfrestur. Verði Gerður ekki endurráðin fær hún þriggja mánaða biðlaun. Gerður getur gengið aftur inn í fyrra starf sitt sem sviðsstjóri hjá Vesturbyggð.

Föst mánaðalaun verða 1.924.583 kr. á mánuði. Tvisvar á ári taka þau breytingum í samræmi við breytingar á launavísitölu. Greiddur er fastur bifreiðastyrkur 900 km á mánuði í samræmi við ákvörðun ferðakostnaðarnefndar ríkisins. Frá 1. maí 2023 eru greiddar 141 kr. fyrir hvern km. sem gera 126.900 kr. á mánuði fyrir 900 km.

Bæjarstjóri fær farsíma og fartölvu og greiðir sveitarfélagið fyrir notkunina og nettenginuna. Við starfslok verður farsíminn eign Gerðar en hún skilar tölvunni.

Ármannsskáli brunninn

Tvær myndir af Ármannsskála. Myndir: Ó. Smári Kristinsson.

Skíðaskáli málfunda- og íþróttafélagsins Ármanns á Dagverðardal upp af Skutulsfirði heyrir sögunni til. Svo virðist að kveikt hafi verið í honum og eftir stendur aðeins grunnurinn og strompur.

Skálinn var reistur sem bústaður yfirmanna á herstöðinni Darra norðan Ísafjarðardjúps í síðari heimsstyrjöldinni. Að heimstyrjöld lokinni eignaðist Málfunda- og íþróttafélagið Ármann skálann og kom honum fyrir þarna sem skíðaskála.

Frá Ísafjarðarbæ fást þær upplýsingar að eignarhald skálans hafi verið óskráð og óljóst.

Nýjustu fréttir