Mánudagur 21. október 2024

Samfylkingin: samkeppni um efstu sætin

Gylfi Þór Gíslason, Ísafirði.

Gylfi Þór Gylfason, Ísafirði tilkynnti nú síðdegis að hann gæfi kost á sér í efstu sæti lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjödæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.

„Ég hef verið virkur í Jafnaðarflokki Íslands í tugi ára. Starfaði lengi með Alþýðuflokki og er núna formaður Samfylkingarinnar á Vestfjörðm og formaður Verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar. Í þessum stjórnum hef ég látið verkin tala og komið þessum félögum á kortið. Eins og tekið hefur verið eftir er Samfylkingin á góðu skriði undir forystu Kristrúnar Frostadóttur. Ég brenn fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunar eins og allir vita sem mig þekkja. Ég er tilbúinn í slaginn ef ég fæ til þess brautargengi.“

Á laugardaginn gaf Hannes S. Jónsson, Akranesi kost á sér fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi. „Ég gef kost á mér á framboðslista flokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum 30. nóvember næstkomandi og sækist ég eftir því að vera í öðru af tveimur efstu sætum listans.“

Hannes var áður í Sjálfstæðisflokknum en segist hafa sagt skilið við hann fyrir nokkru. „Með nýrri forystu Samfylkingar hefur flokkurinn hrist upp í pólitíkinni og fært jafnaðarflokkinn aftur nær fólkinu í landinu. Ég tel að við sem þjóð þurfum á traustri forystu að halda á þessum tímum sem við lifum. Samfylkingin býður upp á opinská stjórnmál og nýtt upphaf fyrir Ísland.“

Fyrr í dag tilkynnti Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ um framboð sitt og sagðist hafa ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. „Ég hef verið lengi virk í Samfylkingu og verið hluti af forystu flokksins síðustu ár. Saman höfum við breytt Samfylkingunni og fært hana nær fólkinu í landinu. En nú er kominn tími á breytingar við stjórn landsins. Við erum til þjónustu reiðubúin, fáum við til þess traust hjá þjóðinni, og ég vil mitt af mörkum á Alþingi.“

Uppstillingarnefnd er að störfum og er búist við því að hún skili af sér tillögu um skipan listans í vikunni.

Arna Lára á leið í framboð

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jóns­dótt­ir, bæj­ar­stjóri Ísa­fjarðar, hef­ur ákveðið að gefa kost á sér til þess að leiða lista Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Norðvest­ur­kjör­dæmi. 

Arna Lára hefur undanfarna daga verið sterklega orðuð við framboð fyrir Samfylkinguna.

Hún segir að ákvörðunin um að fara í framboð hafi ekki verið auðveld, enda sé gaman í vinnunni og gott að fylgjast með Ísafjarðarbæ vaxa og dafna.

Hún  vonast til þess að ákvörðun uppstillingarnefndar muni liggja fyrir í lok vikunnar.

Útreikningur á hlutdeild skipa í grásleppu mun liggja fyrir í byrjun nóvember

Alþingi samþykti í júní s.l. frumvarp til laga um kvótasetnngu grásleppuveiða og tóku lögin gildi 1. september.

Aflahlutdeild einstakra skipa er ákveðin með tilliti til veiðireynslu sem fengist hefur á grundvelli réttar til grásleppuveiða á árunum 2018 – 2022, að árinu 2020 undanskildu.

Einungis fiskiskip undir 15 brúttótonnum fái úthlutað grásleppuleyfi.

Landinu er skipt í fimm staðbundin veiðisvæði og eru Vestfirðir og Breiðafjörður eitt svæði.

Samkvæmt lögunum skal Fiskistofa úthluta aflahlutdeild á skip á grundvelli veiðireynslu og gerir Fiskistofa ráð fyrir því birta áætlaða hlutdeild skipa í byrjun nóvember.

Landsátaki í sundi frá 1. – 30. nóvember 2024

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 30. nóvember 2024.

Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna. Sund er fyrir alla óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Sund er tilvalin þjálfunaraðferð þar sem sund styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans. Sund er frábær hreyfing bæði til þess að hlúa að heilsunni og sem skemmtileg tómstundaiðja.

Syndum er verkefni undir Íþróttaviku Evrópu og styrkt af Evrópusambandinu. Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings.

Átakið var fyrst haldið 2021 og þá syntu landsmenn samtals 11,6 hringi í kringum landið. Í fyrra voru syntir rúmlega 20 hringir en markmiðið í ár er að fá enn fleiri til að vera með og uppgötva hvað sund er frábær alhliða hreyfing.
Sund er fyrir alla óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Sund er tilvalin þjálfunaraðferð þar sem sund styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans. 

Túr um Byggðasafnið á einfaldri íslensku

Í tilefni þess að Veturnætur eiga sér stað á Ísafirði vill Byggðasafnið og Gefum íslensku séns bjóða upp túr um jarðhæð safnins 26. október klukkan 13:00.

Túrinn verður á einfaldari íslensku fyrir þá sem læra íslensku en við viljum auðvitað hvetja almannakennara til að koma og skapa samtal, æfa samræður á íslensku. Íslenska á ekki að lærast í tómarúmi.

Endilega hjálpum til við máltileinkun íslensku sem annars máls.

Íslenskuvænt samfélag vill stuðla að auknum möguleikum við notkun íslensku fyrir alla sem læra málið.

Á morgun þriðjudag kl. 18:00 í Bókasafnið Bolungarvíkur Aðalstræti 21 Bolungarvík – Viltu tala íslensku? Hér er sénsinn! Íslenska lærist bara ef hún er notuð. Til að læra og æfa íslensku þarf að vera til tækifæri til þess. Hérna er tækifærið.

Gott að eldast: Opinn kynningarfundur á Ísafirði 22. október

Þriðjudaginn 22. október kl. 14-16 verður opinn kynningarfundur á verkefninu Gott að eldast í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Dagskrá

Setning fundar
Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir, tengiráðgjafi Gott að eldast

Þróunarverkefnið Gott að eldast á Vestfjörðum: Samþætting félags- og heilbrigðisþjónustu
Hildur Elísabet Pétursdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Heilsuefling og styrkur eldra fólks
Heba Dís Þrastardóttir, þjálfari

„Það er pláss fyrir alla“: Vitundarvakning um heilbrigða öldrun og áhrif félagslegrar einangrunar á lífsgæði
Líney Úlfarsdóttir, sálfræðingur og Svavar Knútur, tónskáld

Í lok fundar er boðið upp á kaffi og kynningu á íþrótta- og félagsstarfi eldra fólks.

Öll eru hjartanlega velkomin!

Neyðarlínan harmar mistök vegna boðunar á Ísafirði og biðst afsökunar

Jón Svanberg Hjartarson.

Jón Svanberg Hjartason, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að pöntun á sjúkrabíl í síðasta mánuði vegna atviks á Ísafirði hafi misfarist. Neyðarlínan harmar þessi mistök og biður alla hlutaðeigandi afsökunar á því, þann sem aðstoðina þurfti, tilkynnandann sem hringdi í 112 og áhöfn sjúkrabifreiðarinnar á Ísafirði.

Svar Jóns Svanbergs í heild:

„Mér hefur verið framsent erindi frá þér með fyrirspurn um afgreiðslu máls er varðar ósk um sjúkrabíl á Ísafirði þann 24. september sl. og vísa einnig í samtal okkar frá í gær vegna málsins. Í framhaldi fyrirspurnarinnar og samtalsins kallaði ég eftir upplýsingum um afgreiðslu málsins hér hjá Neyðarlínunni.

Sú athugun hefur leitt í ljós að mistök voru gerð í framhaldi innhringingarinnar. Þau felast í því að boðun sjúkrabíls dróst og hafði ekki verið framkvæmd þegar Neyðarlínunni barst önnur hringing þar sem spurt var um stöðu sjúkrabílsins en í því símtali kom fram að aðstoð væri komin og því ekki lengur þörf á sjúkrabíl.

Við skoðun í skráningarkerfi Neyðarlínunnar má sjá að innhringing með ósk um sjúkrabíl er skráð kl. 14:35:27. Eftir að neyðarvörður hefur staðreynt tilvik og staðsetningu í samtali við innhringjanda er gerð svokölluð “pöntun” í skráningarkerfinu á sjúkrabíl kl. 14:37:37. Sú pöntun hafði hins vegar ekki verið afgreidd með boðun til áhafnar sjúkrabíls á Ísafirði þegar hringt var aftur u.þ.b. 10 mínútum seinna eða kl. 14:47:16.

Yfirleitt er það svo að pöntun á sjúkrabíl er samstundis tilkynnt hlutaðeigandi áhöfnum sjúkrabíla og svo hefði átt að vera í þessu tilfelli. Það eru hins vegar dæmi þess að slíkar pantanir tefjist ef áhafnir sjúkrabíla eru uppteknar við aðra sjúkraflutninga eins og gerist oft á höfuðborgarsvæðinu, þar sem álag í sjúkraflutningum er mikið. Áhöfnunum er þá úthlutað fyrirliggjandi aðstoðarbeiðnum eftir að þær losna úr yfirstandandi verkefnum. Því var ekki að heilsa á Ísafirði og því er ljóst að boðun áhafnar sjúkrabifreiðarinnar tafðist.

Í viðkvæmum störfum Neyðarlínunnar er lítið svigrúm til mistaka og geta þau hreinlega haft áhrif á líf og heilsu fólks. Þetta erum við, starfsfólk Neyðarlínunnar vel meðvituð um. Við erum líka mjög meðvituð um það að þar sem hugur og hönd koma að málum þar geta orðið mistök. Í ljósi þess eru öll frávik skoðuð sérstaklega með það að markmiði að leita leiða til að lágmarka mistök og bæta verklag og ferla. Við leitumst eftir því að allar upplýsingar um mistök eða frávik komi fram og slík tilvik eru nýtt til rýni og úrbóta. Við tökum því öllum slíkum ábendingum, hvort heldur koma frá starfsfólki sjálfu, málsaðilum eða fjölmiðlum með það að markmið að leita leiða til að gera betur. Rýni þessa atviks er í meðförum hér innanhúss.

Við rýni sem þessa leitumst við m.a. að greina bæði orsök og afleiðingu. Við skoðun verkefna þessa tiltekna dags og á þeim tíma sem þessi tilkynning barst þá eru fimm neyðarverðir á vakt. Hins vegar var álag á þessum tíma gríðarlega mikið sem er sennilega megin orsakavaldur þess að afgreiðsla þessa tiltekna máls misfórst. Má þar nefna að stórri aðgerð var að ljúka vegna banaslyss í Brúarárfossi ásamt því að banaslys/umferðarslys varð við Fossá en fyrstu viðbragðsaðilar voru að koma á þann vettvang þegar áðurnefnd ósk um sjúkrabifreið barst frá Ísafirði. Þá eru ótalin önnur verkefni sem voru í gangi á sama tíma en að jafnaði berast u.þ.b. 650 símtöl á sólarhring í neyðarnúmerið 112. Við slíka atburði sem hér eru nefndir myndast gríðarlegt álag, bæði í innhringingum í neyðarnúmerið 112 sem og í fjarskiptum við boðun viðbragðsaðila og aðstoð við þá á vettvangi. Það hafði þær afleiðingar að pöntun sjúkrabíls á Ísafirði tafðist/misfórst.

Neyðarlínan harmar þessi mistök og biður alla hlutaðeigandi afsökunar á því, þann sem aðstoðina þurfti, tilkynnandann sem hringdi í 112 og áhöfn sjúkrabifreiðarinnar á Ísafirði.“

Fjórðungsþing: Ekki ályktað um Álftafjarðargöng

Frá Fjórðungsþinginu.

Ekki varð ályktað sérstaklega um Álftafjarðargöng á Fjórðungaþingi Vestfirðinga um nýliðna helgi en fyrir þinginu voru lagðar tvær ályktanir þar um, önnur frá sveitarstjórn Súðavíkurhrepps og hin frá Strandabyggð. Í tillögunum var sagt að brýt væri að ráðast í göngin sem fyrst.

Þess í stað var gerð ályktun um Vestfjarðalínu. Þar eru stjórnvöld hvött til að leita nýrra leiða við fjármögnun á uppbyggingu innviða á Vestfjörðum. Litið verði á uppbyggingu jarðganga og annarra samgönguinnviða á Vestfjörðum sem sérstakt viðfangsefni samgöngumála í landinu.

„Fjórðungsþing telur mikilvægt að stjórnvöld gangi hér til samstarfs við Innviðafélag Vestfjarða, sveitarfélög, Vestfjarðastofu og aðra hlutaðeigandi aðila við leit að fjármagni til að hrinda í framkvæmd samgönguverkefninu Vestfjarðalínu. Vestfjarðalína verði sérstakur samgöngusáttmáli fyrir Vestfirði sem tryggir öruggan láglendisveg árið um kring og tengir saman mismunandi svæði Vestfjarða og landshlutann saman í eina heild og með öfluga tengingu við höfuðborgarsvæðið.“

Þá ítrekaði Fjórðungsþing ályktun frá 68. Fjórðungsþingi um að haldið verði þing um jarðgöng og fjármögnun stórframkvæmda þar sem forsendur uppröðunar jarðgangakosta og leiðir til fjármögnunar stórframkvæmda í vegagerð verði ræddar og óskað var eftir aðkomu Innviðafélagsins að þeirri vinnu.

Tveir Vestfirðingar á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Dagný Finnbjörnsdóttir.

Sjálfstæðisflokkurinn gekk frá skipan framboðslista í Norðvesturkjördæmi fyrir næstu Alþingiskosningar. Hvorugur núverandi alþingismanna flokksins verða á listanum. Þórdís K. Gylfadóttir verður í framboði í Suðvesturkjördæmi og Teitur Björn Einarsson hlaut ekki brautargengi í 2. sæti listans.

Aðeins er að finna tvo Vestfirðinga á listanum. Það eru Dagný Finnbjörnsdóttir, Ísafirði sem er í 4. sæti listans og Þórður Logi Hauksson, Önundarfirði sem skipar 10. sætið. Þingsætum kjördæmisins fækkar um eitt og verða þau sjö.

Listinn er þannig skipaður:

  1. sæti Ólafur Adolfsson lyfsali Akranesi
  2. sæti Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri Dalir/Borgarnesi
  3. sæti Auður Kjartansdóttir fjármálastjóri Snæfellsnesi
  4. sæti Dagný Finnbjörnsdóttir íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Vestfjörðum
  5. sæti Kristófer Már Maronsson starfsmaður þingflokks  Sauðárkróki
  6. sæti Ragnhildur Eva Jónsdóttir lögfræðingur/sauðfjárbóndi Borgarfirði
  7. sæti Magnús Magnússon sóknarprestur V-Hún
  8. sæti Sigurbjörg Ottesen Kúabóndi/stjórnarmaður BÍ  Snæfellsnesi
  9. sæti Ragnheiður Helgadóttir hjúkrunarfræðingur Akranesi
  10. sæti Þórður Logi Hauksson nemi Vestfirði/Borgarfirði/Skagafirði
  11. sæti Snæbjört Pálsdóttir sérfræðingur hjá VÍS/laganemi Skagafirði
  12. sæti Guðmundur Haukur Jakobsson pípulagningameistari A-Hún
  13. sæti Helgi Rafn Bergþórsson nemi Akranesi
  14. sæti Sigríður Finsen hagfræðingur Snæfellsnesi

Ísafjarðarbær: 9% hækkun fasteignaskatts og lóðarleigu

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ákvað á fundi sínum í síðustu viku fasteignagjöld næsta árs. Fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,54% í 0,50% en að öðru leyti er álagning fasteignaskattsins óbreytt frá yfirstandandi ári.

Fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði verður áfram 1,65% af fasteignamati, af opinberum byggingum er skatturinn 1,32% og lóðarleiga verður 1,5%.

Tekjur af fasteignaskattinum og lóðarleigu eru áætluð verða 741 m.kr. á næsta ári og hækka úr 679 m.kr. Hækkunin er 9% milli ára. Þegar litið er einvörðungu á íbúðarhúsnæði er hækkunin 8,6%.

Heildarfasteignamat í Ísafjarðarbæ árið 2025 er 86.309 m.kr. en var kr. 76.600 m.kr. árið 2024, sem er 12,7% hækkun. Frá árinu 2021 hefur fasteignamat hækkað um 83,4%.

Lækkun álagningarhlutfallsins á fasteignaskattinum úr 0,54% í 0,50% hefur áhrif á framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Ísafjarðarbæjar og veldur lækkun þess um 17,1 m.kr. á næsta ári.

Nýjustu fréttir