Þriðjudagur 16. júlí 2024

Nýr sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs Fiskistofu

Viðar Ólason hefur verið ráðinn í stöðu sviðsstjóra veiðieftirlitssviðs sem auglýst var á dögunum, en Elín Björg fráfarandi sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs hefur tekið við starfi fiskistofustjóra.

Viðar er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Auk þess hefur hann lokið námi frá Stýrimannaskólanum, II. stig og sótt fjölmörg námskeið á sviði stjórnunar og stjórnsýsluréttar.

Viðar hefur 20 ára reynslu af sjávarútvegi. Hann hefur starfað sem deildarstjóri sjóeftirlits hjá Fiskistofu frá árinu 2016 þar sem hann hefur stýrt sjóeftirliti. Auk þess hefur hann leyst af sem deildarstjóri landeftirlits. Viðar starfaði áður í tíu ár sem forritari hjá Advania og þar á undan sem stýrimaður og skipstjóri í 15 ár.

Í störfum sínum hjá Fiskistofu hefur Viðar gegnt ýmsum nefndarstörfum og verið í starfshópum skipuðum af fagráðuneyti sem og Fiskistofu auk þess sem hann hefur stýrt samráðsfundum með öðrum systurstofnunum. Þá hefur hann sinnt ýmsum erlendum verkefnum fyrir hönd Fiskistofu, verið í sendinefndum Íslands m.a. í tvíhliða samningum um sjávarútvegsmál við önnur ríki auk þess sem honum var falið að leiða alþjóðlega ráðstefnuröð sem tileinkuð er störfum eftirlitsmanna á sjó sem haldin verður í Hörpu í maí 2025.

Síðasta opinbera heimsókn forseta innanlands

Forseti með íbúum Árneshrepps. Ljósmynd Una Sighvatsdóttir
Forseti með íbúum Árneshrepps. Ljósmynd Una Sighvatsdóttir

Forseti Íslands fór í opinbera heimsókn í Árneshrepp á Ströndum og kynnir sér þar lífshætti íbúa og sögu. Ferðin stóð í þrjá daga og var þetta síðasta opinbera heimsókn forseta innanlands áður en hann lætur af embætti í lok júlí. Í embættistíð sinni hafa forsetahjónin farið að jafnaði í þrjár opinberar heimsóknir innanlands á ári og þannig heimsótt 22 sveitarfélög, auk tíðra ferða um landið allt af ýmsum öðrum tilefnum.

Árneshreppur er víðfeðmur en um leið eitt fámennasta sveitarfélag Íslands. Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti og hreppstjórnin buðu forseta velkominn á hreppamörkunum við fjallið Spena. Þaðan var ekið á sauðfjárbúið Mela í Trékyllisvík þar sem sauðfjárbændurnir Bjarnheiður Júlía Fossdal og Björn Guðmundur Torfason tóku á móti forseta. Sauðfjárrækt hefur löngum verið helsti atvinnuvegur í Árneshreppi en á Melum er fjárhúsið einnig nýtt sem tónleikastaður á sumrin þegar tónlistarhátíðin Nábrókin er haldin þar.

Á föstudagskvöld bauð hreppstjórn til kvöldverðar til heiðurs forseta í félagsheimilinu í Trékyllisvík fyrir alla íbúa sveitarfélagsins. Í ávarpi til Árneshreppsbúa vakti forseti meðal annars máls á því að Árneshreppur hafi undanfarin ár talist til brothættra byggðarlaga, þar hafi yfir 500 manns búið um miðja síðustu öld en við síðustu áramót hafi skráðir íbúar verið 53 talsins.

Sagði forseti ljóst að mikill missir yrði af því ef byggð legðist af á þessum stórbrotna stað: „Öld fram af öld hafa Strandamenn eflt með sér dugnað og dirfsku, enda ekkert annað í boði á þessum slóðum, undir reginfjöllum fyrir opnu hafi.

Á laugardeginum slóst forseti í för með gönguhópi á vegum Ferðafélags Íslands. Haldið var á fjallið Glissu á mörkum Reykjarfjarðar og Ingólfsfjarðar. 

Að lokinni göngu var farið í sjósund fyrir botni Norðurfjarðar og loks í sund í Krossneslaug en 70 ára afmæli laugarinnar var fagnað nú í sumar. Að loknum kvöldverði á Kaffi Norðurfirði efndi Ferðafélag Íslands svo til tónleika í fjárhúsinu í Norðurfirði þar sem Helgi Björnsson kom fram.

Opinberri heimsókn forseta í Árneshrepp lauk í Djúpavík. Þar snæddi forseti hádegisverð í boði hreppstjórnar á Hótel Djúpavík og fékk leiðsögn um sögusýninguna í gömlu síldarverksmiðjunni þar. 

Síðasti dagur strandveiða í dag

Frá löndun úr strandveiðibát í Patrekshöfn. Mynd: Patrekshöfn.

Í dag er síðasti dagur strandveiða. Rúmlega 500 tonn af þorski voru eftir í pottinum í morgun sem er örlítið meira en afli gærdagsins.

Sjósókn er góð í dag og því er þetta síðasti dagur sem hægt er að heimila strandveiðar.

Auglýsing um stöðvun strandveiða verður birt á vef stjórnartíðinda síðar í dag og tekur gildi frá og með morgundeginum.

Öll strandveiðileyfi falla niður frá og með morgundeginum og er skipum þá heimilt að halda til veiða ef skip er með almennt veiðileyfi.

Ef skip var í núllflokki áður en það fékk strandveiðileyfi þarf að sækja um almennt veiðileyfi áður en haldið er til veiða.

Hægt er að skoða hvort skip sé með veiðileyfi á vefsíðu Fiskistofu undir skipaleit en athuga ber að strandveiðileyfið gæti verið inni í nokkra daga þrátt fyrir að búið sé að fella það úr gildi.

Slasaður göngumaður sóttur í Hornvík

Björgunarskip Björgunarfélags Ísafjarðar, Gísli Jóns, er nú á leið frá Ísafirði í Hornvík til að sækja slasaðan göngumann.

Útkallallið barst um klukkan 10 í morgun. Með í för eru sjúkraflutningamenn sem munu undirbúa hinn slasaða fyrir flutning til Ísafjarðar.

Að sögn Guðbrands Örn Arnarsonar hjá Landsbjörgu er takmarkað fjarskiptasamband á svæðinu og Landsbjörg hefur fengið litlar upplýsingar um slyssins.

Súðavík: framkvæmdir ganga vel á Langeyri

Vegurinn út á landfyllinguna. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Framkvæmdir ganga vel við nýja hafnaraðstöðu á Langeyri í Álftafirði. Verktakinn Kraninn ehf frá Austurlandi eru að reka niður stálþil og gera 80 metra viðlegugarð. Tilboð Kranans var um 158 m.kr. Tígur ehf er að keyra grjóti í fyllinguna og sá um landfyllinguna.

Að sögn Braga Þórs Thoroddsen, sveitarstjóra er verkið um það bil hálfnað og verklok eru 1. nóvember n.k.

Kostnaður við hafnarframkvæmdirnar er um 650 m.kr. og þar af greiðir sveitarfélagið liðlega helminginn.

Íslenska kalkþörungaverksmiðjan mun hefja framkvæmdir næsta vor við nýja kalkþörungaverksmiðju á landfyllingunni og áformar að gangsetja hana í lok árs 2026.

Sveitarfélagið fær kostnaðinn endurgreiddan með samningi við Íslenska kalkþörungaverksmiðjuna fyrir afnot af hafnaraðstöðunni og landfyllingunni.

Nýja verksmiðjan mun geta framleitt úr um 120 þúsund tonna af kalkþörungum á ári og við hana munu starfa 20 – 30 manns auk afleiddra starfa. Verksmiðjan verður mjög fullkomin og mun kosta 3,5 – 5 milljarða króna.

Byrjað er að reka niður stálþilið.

IWF: haft í hótunum við embættismenn

Mynd úr frétt Vísis í gær.

The Icelandic Wildlife Fund, sem einnig nefnist íslenski náttúrverndarsjóðurinn, hefur kært til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, útgáfu leyfis Matvælastofnunar til Arnarlax til laxeldis í Ísafjarðardjúpinu á ófrjóum laxi.

Athygli vekur að talsmaður sjóðsins, Jón Kaldal, sér ástæðu til þess að vega sérstaklega að embættismönnum Matvælastofnunar. Hann segir í viðtali á Vísi í gær :

„Full ástæða er til að velta fyrir sér persónulegri ábyrgð starfsmanna MAST, sem tóku þessa ákvörðun og skrifa undir leyfið, ef slys verða vegna staðsetninga sjókvíanna á siglingaleiðum þar sem Samgöngustofa segir að þær megi ekki vera. Stofnanir hafa ekki sjálfstæðan vilja. Það er fólk sem stýrir þeim og hlýtur að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingum verka sinna.“

Þarna er Jón Kaldal að ráðast að embættismönnum í starfi og vill gera þá persónulega ábyrga fyrir leyfisveitingunni og refsa þeim. Hótun af þessu tagi er að mínu mati sett fram til þess að hræða embættismennina og beygja þá undir vilja þeirra sem eru andvígir laxeldinu. Þetta er ekkert annað en ofbeldi.

Því miður er þetta ekki einsdæmi. Um áramótin var annað dæmi upp á teningnum. Þá var það framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga, Gunnar Örn Petersen sem réðist að lögreglustjóranum á Vestfjörðum fyrir að hafa lokið rannsókn á þætti stjórnenda eldisfyrirtækis á slysasleppingu í Patreksfirði með þeirri niðurstöðu að fella málið niður. Gunnar Örn fór, eins og Jón Kaldal nú, beint í manninn og sakaði lögreglustjórann um vanhæfi og að hann kynni ekki lögfræði. Krafðist hann þess að Ríkissaksóknari ógilti niðurstöðu lögreglustjórans á Vestfjörðum. Það gekk eftir og er málið því enn í rannsókn. Segja má með nokkurri vissu að þar hafi hótanir í garð embættismanna haft áhrif og auðvitað er slíkt líklegt til þess að þessi baráttuaðferð verði endurtekin.

Það er ekkert grín fyrir embættismenn, sem eru að framfylgja lögum, að eiga yfir höfði sér hótanir og jafnvel málshöfðun ef einstökum aðilum að deilumáli líkar ekki framkvæmdin. Þá þarf að hafa í huga að að baki IWF eru vellauðugir einstaklingar og áhrifamiklir.

Úrskurðarnefndin er hin lögbundna leið til þess að skera úr um ágreiningsmál í þessari löggjöf. Verk embættismanna hjá stofnunum ríkisins eru eftir atvikum þar tekin til athugunar og óháðir nefndarmenn kveða upp úr um þau. Síðan er hægt að fara með úrskurð nefndarinnar til dómstóla ef málaðilum sýnist svo. Þetta er leiðin til þess að útkljá málin.

En Jón Kaldal og félagar eru með þessi ofbeldi að færa málin í annan farveg, farveg hótana og ofbeldis. Það er í raun yfirlýsing um að þeir telja ekki líklegt að hafa sitt fram í lögbundnu ferli.

Leyfisveiting með skilyrðum

Að sögn Jóns var rekstrarleyfi MAST var gefið út í júní þvert á afgerandi mat Samgöngustofu um að óheimilt væri að veita leyfi á tveimur eldissvæðanna með tilliti til siglingaöryggis samkvæmt því sem fram kemur á Vísi.

Merkilegt er að IWF hefur einkum varað við erfðablöndun milli eldislax og villts lax. Í þessu leyfi er engin hætta á því. Leyfið nær aðeins til ófrjós lax. En það virðist ekki skipta máli þegar upp er staðið, það er kært engu að síður. Tilefni kærunnar er siglingaöryggi. Það hefur ekkert með stangveiði að gera.

Þarna þarf að bæta við upplýsingum og leiðrétta þessa frásögn. Útgefið leyfi Matvælastofnunar setur skilyrði fyrir nýtingu eldissvæðanna sem þarf að uppfylla áður en hægt verður að setja út eldisfisk. Það skilyrði er byggt á áhættumati siglingaöryggis, sem þrjár opinberar stofnanir unnu, fyrir þau svæði sem leyfið tekur til, en þar er kveðið á um að jaðar sjókvíaeldisstöðvanna Drangsvíkur og Eyjahlíðar skuli ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en 50 m og jaðar sjókvíaeldisstöðvarinnar Óshlíðar skuli ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en 200 m.

Með öðrum orðum þá er siglingaöryggið talið í góðu lagi með þessu skilyrði. Þá vísar Matvælastofnun til þess að samþykkt hefur verið strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði þar sem gert er ráð fyrir fiskeldi á ákvæðum svæðum, þar með talið þeim sem leyfi Arnarlax nær til.

Það er því niðurstaða Matvælastofnunar að þar sem það er opinber afstaða að heimila fiskeldi á þessum svæðum sé ekki hægt að hafna útgáfu rekstarleyfis fyrir þau svæði rekstrarleyfisins sem eru í
hvítum ljósgeira. Rekstrarleyfishafi hefur þegar hafið í samvinnu við verkfræðistofuna EFLU að vinna að útfærslu siglingaöryggis m.t.t. mótvægisaðgerða á svæðinu.

Það er því verkefni fyrirtækisins að finna lausnir þannig að skilyrðin verði uppfyllt. Það verður svo að koma í ljós hvernig það gengur. En siglingaleiðir eru ekki óumbreytanlegar og svo má færa til eldissvæði svo eitthvað sé nefnt.

En andstæðingar laxeldisins í Djúpinu hafa stigið varhugavert skref. Hótanir og ofbeldi eru ekki leiðin, en eru kannski til marks um örvæntingu þeirra sem finna að málefnalegu rökin eru ekki þeim í hag.

-k

Bogfimi: gull og brons til Vestfirðinga á Norðurlandamóti

Kristjana Rögn Andersen.

Skotíþróttafélag Ísfirðinga átti tvo keppendur og þjálfara á Norðurlandameistaramóti ungmenna í bogfimi sem haldið var í Óðinsvéum í Danmörku dagana 3.-8. júlí. Uppskeran var góð, gull og brons.

Kristjana Rögn Andersen frá Þingeyri vann gull í einstaklingskeppni með berboga yngri en 18 ára og Maria Kozak, Suðureyri varð í þriðja sæti í berboga í liðakeppni fyrir yngri en 21 árs.

Þá var Maria Kozak í þriggja manna liði sem setti Íslandsmet í berboga U21. Með stúlkunum fór Kristján Guðni Sigurðsson þjálfari en hann býr í Bolungavík.

Íslendingar sendu út 35 keppendur og unnu þeir samtals 6 gull, 13 silfur og 4 brons. 

Maria Kozak.

Kristján Guðni.

Myndir: Bogfimisambandið.

Hólmavík: malbikaðar götur

Í síðustu viku voru miklar framkvæmdir á Hólmavík við malbikun gatna.

Lélegur kafli á Kópnesbraut var malbikaður.  Einnig var Miðtúnið mablikað sem og Vitabrautin upp með ráðhúsinu, en sá kafli var farinn að skemmast samkvæmt því sem Þorgeir Pálsson sveitarstjóri greinir frá.   Þá var haldið áfram að malbika á Skeiði, þar sem fyrirhugað er að byggja upp aukna þjónustu við bíleigendur.

Frá malbikun á Miðtúni.

Myndir: Jón Halldórsson.

Hæstu heildartekjur í fyrra í Árneshreppi

Frá höfninni í Norðurfirði í Árneshreppi.

Hagstofa Íslands hefur birt upplýsingar um tekjur síðasta árs. Meðaltal heildartekna pr. framteljanda voru 9.229 þús. krónur yfir landið í heild.

Í öllum níu sveitarfélögum á Vestfjörðum voru mealtekjurnar lægri en landsmeðaltalið.

Hæstar voru meðaltekjurnar í Árneshreppi 99,5% af landsmeðaltalinu eða 9.186 þús kr. Næsthæstar voru meðaltekjurnar í Bolungavík 8.879 þús. kr. Vesturbyggð er í þriðja sæti með 8.810 þús kr. pr. framteljanda. Lægstar voru meðaltekjurnar í Reykhólahreppi 7.780 þús kr. sem gerir 84,2% af landsmeðaltalinu.

Heildartekjur pr. framteljanda. Mælt í þúsundum króna.

Tálknafjörður hæstur í atvinnutekjum

Þegar litið er eingöngu á atvinnutekjur breytist myndin. Þá eru atvinnutekjur á hvern framteljanda á síðasta ári hæstar í Tálknafjarðarhreppi 7.249 þús .kr. sem er 14% hærra en landsmeðaltalið 6.362 þús kr. Vesturbyggð er í öðru sæti með 6.547 þús kr. í meðalatvinnutekjur sem er 3% yfir landsmeðaltalinu.

Hér verður Árneshreppur í lægsta sæti yfir sveitarfélögin á Vestfjörðum með meðalatvinnutekjur 3.563 þús kr. sem er aðeins 56% af landsmeðaltalinu.

Meðaltal atvinnutekna pr. framteljanda mælt í þúsundum króna.

Launatekjur og aðrar starfstengdar tekjur, ökutækjastyrkur, dagpeningar og hlunnindi. Auk þess teljast reiknað endurgjald og tekjur erlendis, aðrar en fjármagnstekjur, til atvinnutekna.

Flateyri: nemendagarðar kosta 380 m.kr.

Nýju nemendagarðarnir á Flateyri eru glæislegir. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fram kemur í ársreikningi nemendagarða Lýðskólans á Flateyri að bygging nemendagarðanna hefur kostað 380 m.kr.

Á síðasta ári var stofnframlag ríkisins 79 m.kr. og Ísafjarðarbæjar 17 m.kr. eða samtals 96 m.kr.

Eignir nemendagarðanna eru metnar á 392 m.kr. í lok síðasta árs. Húseignin er bókfærð á 374 m.kr. og viðskiptakröfur og handbært fé var 18 m.kr.

Skuldir voru 217 m.kr. og eigið fé því 175 m.kr. Eigið fé verður til vegna stofnframlaga opinberra aðila sem hafa verið 177 m.kr.

Rekstrartekjur voru á síðasta ári 13 m.kr. og rekstrargjöld voru 7 m.kr. Hagnaður varð 6 m.kr. fyrir fjármagnsgjöld sem voru 9 m.kr. Niðurtaðan af rekstrarreikn varð því 3 m.kr. tap.

Engar launagreiðslur voru hjá félaginu á árinu.

Stjórn Nemendagarða Lýðskólans hses skipa

Egill Ólafsson
Kristín Guðmunda Pétursdóttir
Anton Helgi Guðjónsson

Framkvæmdastjóri er Sigríður Júlía Brynleifsdóttir.

Nýjustu fréttir