Nafnskírteini sem ferðaskilríki

Í júní 2024 voru 6.060 almenn íslensk vegabréf gefin út. Til samanburðar voru 7.229 vegabréf gefin út í júní árið 2023.

Þá voru gefin út 464 íslensk nafnskírteini í sama mánuði, þar af 95% sem ferðaskilríki. Útgáfa þeirra hófst í mars á þessu ári.

Þjóðskrá annast útgáfu vegabréfa og nafnskírteina. Sýslumenn taka við umsóknum. 

Nýju nafnskírteinin eru fullgild persónuskilríki og geta allir íslenskir ríkisborgarar óháð aldri sótt um nafnskírteinin og notað þau til auðkenningar.

Eldri nafnskírteini sem voru gefin út fyrir 1. janúar 2013 féllu úr gildi þann 1. desember 2023 með gildissetningu nýrra laga. Eldri nafnskírteini sem gefin hafa verið út eftir þann tíma og fram til 1.mars 2024 falla úr gildi 31. desember 2025.

Með nýrri útgáfu nafnskírteina er verið að auka öryggi þeirra í samræmi við auknar kröfur sem gerðar eru til persónuskilríkja ásamt því að nafnskírteinin er í handhægri stærð í uppfærðu útliti. Nýju lögin um nafnskírteini byggja á, og innleiða, Evrópusambands reglugerð sem var gagngert sett til að auka öryggi persónuskilríkja og ferðaskilríkja innan Evrópusambandsins/Evrópska efnahagssvæðisins.  Með því að innleiða þessa reglugerð er Þjóðskrá að uppfylla kröfur Evrópusambandsins þar sem nýju nafnskírteinin eru í samræmi við önnur Evrópusambands lönd.  

Útlit nafnskírteinanna byggir á nýjum staðli frá Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og er Ísland fyrsta landið í heiminum sem gefur út skilríki samkvæmt þessum nýja staðli.  Helsta breytingin er að andlitsmynd er mun stærri, sem auðveldar allan samanburð við handhafa kortsins.

Nafnskírteini sem ferðaskilríki

Íslenskum ríkisborgurum stendur nú til boða að sækja um nafnskírteini sem ferðaskilríki.

Nafnskírteini sem eru ferðaskilríki er hægt að framvísa innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) í stað þess að framvísa vegabréfi. Nafnskírteinin staðfesta handhafa kortsins og ríkisfang. Skírteinin eru með örgjörva líkt og vegabréf og fylgja alþjóðlegum stöðlum og ESB-reglugerð.

Munurinn á nafnskírteinum sem ferðaskilríkjum og vegabréfum, er að vegabréf gilda sem ferðaskilríki til allra landa í heiminum en nafnskírteinin gilda innan landa Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Verð fyrir nafnskírteini er 4.600 kr. fyrir börn, öryrkja og aldraða og 9.200 kr. fyrir einstaklinga 18 ára og eldri.

Afgreiðslutími nafnskírteina er sami og á vegabréfum, eða allt að 6 virkir dagar.

DEILA