Fótboltinn á helginni

Það verður ýmislegt um að vera í fótboltanum á helginni en karlalið Harðar og kvennalið Vestra eiga bæði leiki.

Hörður fær Afríku í heimsókn í 5. deildinni á morgun, laugardag, en leikur liðanna fer fram á Torfnesi og hefst kl 15:00. Liðið hefur farið ágætlega af stað í sumar en fékk þó 2-4 skell í síðasta leik. Tímabil Afríku hefur aftur á móti farið heldur brösulega af stað og hefur liðið byrjað tímabilið með þremur töpum á markatölunni 0-19.

Á sunnudaginn mætast svo Völsungur og Vestri í 1. deild kvenna á Húsavík og hefjast leikar kl 13:00. Vestra-stúlkur eru enn á höttunum eftir fyrsta sigri sumarsins en þær kræktu í fyrsta stigið í síðustu umferð með jafntefli á móti Smára. Það verður þó við ramman reip að draga því Völsungur hefur sigrað alla leiki sína í sumar.

DEILA