40 milljónir í styrki til atvinnumála kvenna

Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað og fengu 33 verkefni styrki samtals að fjárhæð 38.000.000 kr. 

Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað frá árinu 1991 og eru þeir ætlaðir frumkvöðlakonum eða fyrirtækjum í þeirra eigu. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi. Það er félags- og vinnumarkaðsráðherra sem veitir styrkina. 

Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum.

Unnt er að sækja um styrki vegna vinnu við gerð viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.

Í ár bárust 244 umsóknir og hefur ráðgjafarnefnd metið þær á undanförnum vikum. Nefndina skipa þær Bergrún Íris Sævarsdóttir, Elín Gróa Karlsdóttir, Guðrún Stella Gissurardóttir, Hanna Dóra Björnsdóttir og Soffía Gísladóttir.

Hæsta styrkinn í ár, 2.5 milljónir króna, hlutu þær Sandra Gísladóttir fyrir verkefnið Barilli Enterprise Karaokee og Alice Sowa fyrir verkefnið Ullarkögglar.

Á Vestfjörðum fengu þær Jamie Lee á Gróustöðum í Reykhólahreppi og Harpa Lind Kristjánsdóttir á Ísafirði styrk að upphæð ein milljón hvor til vöruþróunar.

DEILA