Ólafur Friðbertsson ÍS 34

Ólafur Friðbertsson ÍS 34. Ljósmynd Sigurður Jóhannesson

Ólafur Friðbertsson ÍS 34 siglir hér inn Súgandafjörðinn til hafnar á Suðureyri.

Ólafur Friðbertsson ÍS 34 var smíðaður Flekkefjord í Noregi 1964 fyrir Súgfirðinga og sagði svo frá komu hans í Vesturlandi 28. apríl 1964:

Á sumardaginn fyrsta kom nýr vélbátur til Súgandafjarðar, Ólafur Friðbertsson ÍS 34. Þetta er 193 lesta stálbátur, smíðaður í Flekkefjord í Noregi, og er þetta sjötti báturinn, sem skipsmíðastöðin smíðar fyrir Íslendinga.

Báturinn er með 495 ha. Lister-vél og ljósavél af sömu gerð. Ganghraði í reynsluför var 10,5 sjm. Báturinn er búinn fullkomnustu siglinga- og fiskileitartækjum.

Eigandi bátsins er Von hf. á Suðureyri, en að því standa Ólafur Friðbertsson skipsstjóri á Suðureyri og synir hans. Skipstjóri á bátnum er Filip Höskuldsson, 1. stýrimaður Einar Ólafsson og 1. vélstjóri Jón H. Jónsson.

Báturinn var 4 1/2 sólarhring frá Flekkefjord með viðkomu í Færeyjum, og tafðist hann á heimleiðinni vegna veðurs. Reyndist báturinn ágætt sjóskip.

Ólafur Friðbertsson kom til Ísafjarðar á föstudag og fór mikill mannfjöldi um borð að skoða þetta nýja og glæsilega fiskiskip.

Svo mörg voru þau orð en Ólafur Friðbertsson ÍS 34 var gerður út frá Súgandafirði til ársins 1982 er hann var seldur til Keflavíkur.

Þar fékk hann nafnið Albert Ólafsson KE 39 en í frétt Víkurfrétta 26. ágúst 1982 um breytingar á bátaflota Suðurnesjamanna sagi m.a:

„Þá hafa þeir feðgar Óskar Ingibersson og Karl Óskarsson fengið nýjan Albert Ólafsson KE 39, 180 tonna yfirbyggt fiskiskip, sem áður hét Ólafur Friðbertsson frá Suðureyri.

Skip þetta var yfirbyggt af Vélsmiðjunni Herði hf. við bryggju í Sandgerði fyrir nokkrum árum. Eldri Albert Ólafsson hefur verið seldur til Vestmannaeyja þar sem hann ber nú nafnið Skúli fógeti. Hann er 47 tonna eikarbátur“.

Albert Ólafsson KE 39 fór í miklar breytingar árið 1992 þar sem hann var m.a lengdur um fimm metra, ný brú, skorsteinshús, frammastur og bakki. Þá var sett í hann veltitankur sem var nýung á þeim tíma.

Albert Ólafsson fékk síðar nafnið Kristrún RE 177 og að lokum Kristrún II RE 477 og var í eigu Fiskkaupa í Reykjavík.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

DEILA