Upplestrarkvöld í Skriðu á Patreksfirði

Fimmtudaginn 28. mars (Skírdag) kl. 20 verður upplestrarkvöld á prentverkstæði Skriðu á Patreksfirði.

Upplesarar kvöldsins verða Ólafur Sveinn Jóhannesson og Sigríður Soffía Níelsdóttir, sem bæði tengjast hingað vestur.

Ólafur Sveinn gaf í fyrra út bókina Tálknfirðingur BA, þar sem hann yrkir um heimabyggð sína af einlægni og dregur upp áhrifamiklar myndir af mannlífi og tilveru fyrir vestan. Þá hefur hann einnig gefið út ljóðabókina Klettur – ljóð úr sprungum, sem var m.a. tilnefnd til ljóðabókaverðlaunanna, Maístjörnunnar.

Sigríður Soffía gaf út sína fyrstu bók í fyrra, Til hamingju með að vera mannleg, en ljóðin voru ort á meðan hún gekk í gegnum krabbameinsmeðferð í heimsfaraldri.

Vorið 2023 var einnig frumsýnt dansleikverk með sama nafni á stóra sviði Þjóðleikhússins, byggt á textum hennar.

Menningar- og ferðamálaráð Vesturbyggðar styrkir viðburðinn

DEILA