Miklar holuviðgerðir á vegum landsins

Þegar styttist í vorið, vinnur starfsfólk Vegagerðarinnar og verktakar hörðum höndum að því að gera við holur sem hafa myndast í bundnu slitlagi víða um land. Umhleypingar í veðri, vatn, frost og þíða, hafa mikil áhrif á holumyndun á vegum. 

Ein af ástæðum þess að holur myndast er þegar vatn liggur á vegum. Ekki þarf nema litla sprungu í malbiki til að vatn komist þar undir og safnist fyrir. Þegar vatn frýs eykst rúmmál þess og þegar það þiðnar aftur, er malbikið uppspennt. Ef þungur bíll ekur þar yfir og brýtur það niður getur hola myndast mjög hratt.

Gert er við holur eins fljótt og kostur er, oft í mjög erfiðum aðstæðum. Vinnuflokkar vinna þá í mikilli nálægð við oft þunga umferð sem getur verið varasamt. Því er mikilvægt að vegfarendur sýni varkárni og dragi úr hraða þegar ekið er hjá.

Lengd vega með bundnu slitlagi á Íslandi er um 5.878 km. Árlega þarf að viðhalda um 700 km af slitlagi ef vel  á að vera. Hin uppsafnaða viðhaldsskuld eftirhrunsáranna gerir það að verkum að slitlög sem þarfnast viðhalds eru um 2.250 km. Niðurstöður burðarþolsmælinga benda til þess að 1.760 km af vegum með bundnu slitlagi hafi takmarkað burðarþol. Þá vegi þarf því að endurbyggja, þar dugar ekki að skipta um slitlag.

DEILA