Tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi ekki háð mati á umhverfisáhrifum

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Þann 5. janúar 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Háafelli ehf. um tímabundna notkun á eldissvæði í Seyðisfirði samkvæmt 19. gr. laga um umhverfismat framkvæmda.


Skipulagsstofnun leitaði umsagna hjá Ísafjarðarbæ, Strandabyggð, Súðavíkurhreppi, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun.

Náttúrufræðistofnun tók undir með öðrum lögbundnum umsagnar- og eftirlitsaðilum það er Hafrannsóknarstofnun, Umhverfisstofnun, Fiskistofu og Matvælastofnun, að þessi breyting á fyrirkomulagi eldis Háafells í Ísafjarðardjúpi feli ekki í sér það miklar forsendubreytingar frá því sem til umfjöllunar var í umhverfismati frá 2020 að þörf sé á nýju mati.

Náttúrufræðistofnun bendir þó á að styttri vegalengd verður milli kvía sem eykur á kröfur um betri vöktun á smithættu á laxalús og smitsjúkdómum. Þá mun fjölgun sjókvíastæða á svæðinu í rekstri auka möguleg truflandi áhrif á dýralíf s.s. hvali, seli og sjófugla sem og sjónræn ásýndaráhrif.

DEILA