Landssamband smábátaeigenda á móti kvótasetningu á grásleppu

Landssambandið hefur sent atvinnuveganefnd Alþingis umsögn við frumvarp um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu).

Í umsögninni eru ítrekaðar samþykktir aðalfunda félagsins um andstöðu við kvótasetningu á grásleppu.

Að óbreyttu mun frumvarpið afnema öll stærðarmörk báta sem stunda mega grásleppuveiðar og jafnframt reglur sem takmarka fjölda neta 

Í umsögninni gagnrýnir LS að hvorki atvinnuveganefnd Alþingis né Matvælaráðuneytið hafi kallað til sérfræðinga til að leggja mat á áhrif fyrirhugaðra breytinga á hinar dreifðu byggðir, mannlíf, menningu og annarra verðmæta sem þær búa yfir.  

Hvaða áhrif það hefur að útgerð hefðbundinna grásleppubáta muni fjara út á næstu árum?  Í þeirra stað kæmu stærri bátar þar sem handhafi aflahlutdeildarinnar væri í fæstum tilvikum um borð og áhöfnin ekki með heimilisfesti í plássinu.  Samþjöppun og fækkun útgerða.  Allt sjálfstæði afnumið.

Einnig segir í umsögn sambandsins að verði frumvarpið að lögum standa margir grásleppusjómenn frammi fyrir því að aflaverðmæti veiðiheimilda nægja ekki fyrir þeim kostnaði sem þeir hafa lagt í.  

Út frá gögnum Fiskistofu og frumvarpinu eins og það liggur fyrir ákvað LS að reikna út væntanlegar aflaheimildir allra þeirra 440 báta sem virkjað hafa leyfi sín á árunum 2014-2019 og 2021-2022.  Útreikningarnir (birt án ábyrgðar) eru byggðir á frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar og miðað er við heildarafla grásleppubáta á síðustu vertíð, 3.797 tonn.   Taflan sýnir afladreifingu.

1 Bátur > 30 tonn
24 Bátar > 20 tonn
71 Bátar > 15 tonn
369 Bátar < 15 tonn
272 Bátar < 10 tonn
150 Bátar < 5 tonn

Á vertíðinni 2023 voru 98 bátar (58%) með meira en 15 tonna afla.  Samkvæmt útreikningnum verður úthlutun samkvæmt frumvarpinu og áðurgefnum forsendum um 37% af meðaltali þriggja bestu viðmiðunaráranna.

DEILA