Íbúar á Íslandi umtalsvert færri en áður var talið

Hagstofa Íslands hefur unnið að endurbættri aðferð við mat á íbúafjölda á Íslandi í kjölfar manntals Hagstofunnar frá 1.janúar 2021 sem sýndi að fjöldi landsmanna var ofmetinn um 10 þúsund manns. Hagstofan stefnir á að gefa út leiðréttar upplýsingar um mannfjölda 1. janúar 2024, þann 21. mars næstkomandi, og uppfæra samhliða tölur allt frá árinu 2011.

Hingað til hafa tölur um íbúafjölda á landinu verið byggðar á skráningu lögheimils í þjóðskrá. Þær tölur benda ranglega til þess að íbúar landsins verði að líkindum 400 þúsund talsins í febrúar 2024.

Endurbætt aðferð Hagstofu við mat á íbúafjölda byggist á því að búseta einstaklinga sé metin út frá breiðari grunni opinberra skráa. Þannig má ætla að í nýju mati Hagstofunnar verði íbúafjöldinn talsvert lægri en nú er talið.

Ástæða ofmats Þjóðskrár á íbúafjölda má rekja til þess að einstaklingar upplýsa stofnunina síður um það þegar þeir flytja úr landi en þegar þeir flytja til landsins. Einstaklingar hafa ríkan hvata til að skrá sig inn í landið, fá kennitölu og þar með ýmsa þjónustu, eins og að opna bankareikning og skrá lögheimili. Slíkir hvatar eru ekki til staðar þegar einstaklingar flytja úr landi. Af því leiðir að skráður íbúafjöldi er hærri en íbúafjöldi landsins.

Ef gert er ráð fyrir að skekkjan hafi vaxið samhliða fjölgun erlendra ríkisborgara má áætla að ofmat íbúafjöldans hér á landi sé nú um 14 þúsund. 

DEILA