Góður fundur á Reykhólum um atvinnuþróun og nýsköpun

Síðasta þriðjudag var boðað til undirbúningsfundar að stofnun atvinnu- og uppbyggingarklasa í Reykhólahreppi.

Markmiðið með fundinum var að skapa umræðu- og samstarfsvettvang fyrir alla sem áhuga hafa á atvinnuþróun, nýsköpun og annarri uppbyggingu í Reykhólahreppi.

Hrafnkell Guðnason, verkefnastjóri framkvæmda og uppbyggingar á vegum Reykhólahrepps, var með framsögu og fór yfir hvað klasastarfsemi gengur út á. Líflegar umræður voru á fundinum og margt athyglisvert kom fram.

Mikið var rætt um ferðaþjónustu, ónýtta möguleika og hvað þyrfti að gera til að geta sinnt ferðafólki sómasamlega. Þar fer saman að flest sem vantar til að taka vel á móti ferðafólki, er jafnframt tækifæri til uppbyggingar og að skapa störf. 

Margt fleira var rætt, sem spannst af því sem nefnt hefur verið, svo sem gistiþjónusta, afþreying, heilsuhótel, sjávarböð, Þörungamiðstöð, hliðið að Vestfjörðum, markaðssetning, sögutengd upplýsingaskilti, minnisvarðar, endurgerð virkisins á Reykhólum, opnunartími þjónustustaða o.fl.

Í lok fundar var nefnd skipuð til að halda áfram með þetta verkefni.

DEILA