Aldrei fór ég suður um páskana

Um páskana verður tónlistarhátíðin ALDREI FÓR ÉG SUÐUR haldin í á Ísafirði.

Það er ekki úr vegi að vita um tilurð hátíðarinnar. Þeim segist svo frá feðgunum Mugison og Papamug.

Við feðgar vorum að drekka bjór í útlöndum sumarið 2003 og fórum þá að ímynda okkur stórhátíð á Ísafirði þar sem venjulegt fólk væri stjörnurnar og pop-stjörnurnar væru í algeru aukasæti.

Okkur fannst svo frábært að sjá fyrir okkur plakat þar sem stærstu stafirnir væru „Dóri Hermans syngur swinging the blues away“ og svo væru helstu meik stjörnur landsins í pínku litlu letri. Við feðgar sátum þarna í nokkra klukkutíma og viti menn við vorum búnir að hanna stærsta og flottasta festival í heimi.

Þegar rann af okkur feðgum héldum við samt áfram að spjalla um þessa hátíð og var það til marks um að hugmyndin væri kannski góð. Okkur langaði að bjóða nokkrum vinum úr bransanum vestur og jafnframt langaði okkur að sýna þeim af hverju við feðgar búum á mörkum hins byggilega heims, ástæðan er náttúrulega augljós, fólkið hérna fyrir vestan.

Án þess að detta í einhvern þjóðernisrembing þá finnst okkur feðgum samt fólkið hérna með eindæmum skemmtilegt og opið, hér eru allir sérvitringar, allir hafa skoðanir á öllu og okkur fannst hreinlega kominn tími til að minna fólkið sjálft á þessa staðreynd og um leið sína vinum og kunningjum hversu skemmtilegt það getur verið hérna fyrir vestan.

Það geta allir rekið ættir sínar vestur og ættu því að fletta í símaskránni, bjalla í frænku og frænda, fá að gista, skella tannburstanum í brjóstvasann, pakka vonda skapinu í tösku og senda á Akureyri, klæða sig í góða skapið og bara kíla-á-ða.

DEILA