Örnám í háskólum eykur sveigjanleika og fjölbreytni

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur kynnt fyrirhugaðar breytingar á lögum um háskóla fyrir ríkisstjórn.

Breytingarfrumvarpið snýr annars vegar að örnámi (e. micro-credentials), sem ekki hefur verið sérstaklega tekið fyrir í lögum um háskóla fram að þessu, og hins vegar að prófgráðum úr diplóma- og viðbótarnámi. 

Um 70% þeirra sem útskrifast úr háskólum landsins eru konur og lágt hlutfall karla er áhyggjuefni.

Ein leið til að ná til fjölbreyttari hóps og m.a. auka hlut karla í háskólanámi er að ná til þeirra sem eru þegar komin á vinnumarkað og skapa tækifæri fyrir þau til að stunda nám er er stutt, sveigjanlegt og byggt upp á einingum, samhliða vinnu.

Með því að veita háskólum tæki til að hreyfa við námsframboði og auka sveigjanleika standa vonir til þess að fjölbreyttur hópur nemenda skrái sig til náms.

Þannig geti háskólarnir mætt samfélagslegu hlutverki sínu enn betur, t.a.m. gagnvart fólki af erlendum uppruna og fólki með fötlun eða aðrar sérþarfir.

Framboð á styttra námi á háskólastigi er mikilvægur þáttur í að styðja við of efla starfstengt nám ásamt því að auka sveigjanleika og fjölbreytni í námsframboði á háskólastigi. Í dag bjóða íslenskir háskólar upp á stuttar námsbrautir sem leiða til 30 eininga diplóma- eða viðbótargráða á meistarastigi. Þróunin innan samevrópska háskólasvæðisins (EHEA) hefur aftur á móti verið sú að diplóma- og viðbótargráður af þessum toga jafngilda almennt 60-90 einingum. Því til viðbótar er svo boðið upp á styttra nám, þ.e. örnám. 

DEILA