Aparóla á Eyrartúni

Ærslabelgurinn á Eyrartúni er skammt frá aparólunni.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur með ákvörðun þann 22. desember vísað frá kæru íbúa við Túngötu á Ísafirði vegna fyrirhugaðrar uppsetningar sveitarfélagsins á aparólu á Eyrartúni.

Þar er fyrir ærslabelgur sem einnig var ágreiningur um á sínum tíma.

Í úrskurði nefndarinnar segir: “ Svo sem að framan greinir lagði kærandi fram erindi til Ísafjarðarbæjar hinn 20. september 2023 þar sem gerðar voru athugasemdir við fyrirhuguð framkvæmdaáform um leikvöll á Eyrartúni. Taldi kærandi framkvæmdina ekki vera í samræmi við deiliskipulag svæðisins auk þess sem sveitarfélaginu var tilkynnt um að til stæði að kæra framkvæmdina til úrskurðarnefndarinnar.

Var erindið afgreitt af skipulags- og mannvirkjanefnd með þeim hætti að fela starfsmanni að svara kæranda í samræmi við framlagt minnisblað og færa til bókar að nefndin teldi framkvæmdina ekki leyfisskylda.

Ekki er hægt að líta svo á að nefnd afgreiðsla feli í sér stjórnvaldsákvörðun tekna á grundvelli skipulagslaga sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Þá hafa önnur lög ekki að geyma heimild til málskots til nefndarinnar vegna afgreiðslunnar. Verður samkvæmt því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.“

DEILA