Hvað er opinber grunnþjónustua

Byggðastofnun hefur að beiðni innviðaráðuneytis unnið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu ásamt greinargerð, ætlað stjórnvöldum, bæði ríki og sveitarfélögum, til leiðbeiningar við stefnumótun og framkvæmd stefna.

Þessi drög hafa verið sett í samráðsgátt stjórnvalda og verða opin til umsagna og ábendinga til 7. febrúar 2024.

Til að skoða nánar grunnþjónustuna er sett fram hugmynd að stigskiptingu hennar, út frá því hversu nálægt þjónustan er íbúanum og miðað við stærð þéttbýlis, hvort um er að ræða þorp, bæ, landshlutakjarna eða borg.

Fyrsta stig þjónustu miðast við þorp. Íbúum sé tryggt aðgengi að lágmarksþjónustu sem allir eiga rétt á og þarf að vera veitt í nærumhverfi.

Annað stig þjónustu miðast við minni bæi og þar fjölgar almennum þjónustuþáttum opinberrar grunnþjónustu.

Á þriðja stigi þjónustu eykst þjónustuframboð og við bætist jafnvel sérhæfð eða sértæk þjónusta sem aðeins er veitt í stærri bæjum eða borg.

Á fjórða stigi þjónustu, í borg/svæðisborg, er að finna alla þætti opinberrar grunnþjónustu og sú sérhæfða og sértæka þjónusta sem í boði er.

Það er áskorun að skilgreina opinbera grunnþjónustu og aðgengi og rétt íbúa að henni. Mikilvægt er að sameiginlegur skilningur ríki á viðfangsefninu. Opinber grunnþjónusta á vegum ríkis og sveitarfélaga á að vera aðgengileg fyrir alla íbúa landsins. Til þess að byggð haldist á öllu landinu þá þarf nauðsynleg þjónusta að vera til staðar fyrir þá sem þar búa.

DEILA