Tjaldsvæðið Djúpadal

Djúpidalur er hentugur staður til að koma við á leið sinni umhverfis Vestfirði eða til að staldra við í nokkra daga og ferðast út frá. Látrabjarg, Dynjandi, Reykhólar, Hólmavík og Ísafjarðardjúp eru allt staðir sem mögulegt væri að heimsækja í dagsferðum frá Djúpadal.

Næsta verslun er á Reykhólum í um 40 mínútna akstursfjarlægð en þar er einnig margt skemmtilegt að skoða, til dæmis báta og hlunnindasýningin. Margar fallegar gönguleiðir eru á svæðinu í nágrenni Djúpadals má sem dæmi nefna leiðina að Vaðalfjöllum og yfir Gufudalsháls.

Á tjaldsvæðinu eru aðstöðuhús með klósetti og sturtu. Vaskur til uppvöskunar er á milli húsana. Efri hluti tjaldsvæðisins er þökulagður og hentar vel tjöldum en neðri hluti svæðisins er með gervigrasi að hluta og hentar vel fyrir ferðavagna og húsbíla. Borð eru á nokkrum stöðum á tjaldsvæðinu. Aðgangur að rafmagni er á öllu tjaldsvæðinu. Aðstaða er til þess að losa bæði grávatn og seyru úr ferðasalernum.

Sundlaugin í Djúpadal er lítil innisundlaug. Utan við húsið er pallur með heitum potti. Gestir laugarinnar eru á eigin ábyrgð í lauginni. Börn skulu ekki skilin eftir eftirlitslaus (í beinni sjónlínu) í lauginni.

Nýtt 150m2 aðstöðuhús hefur nýlega verið reyst við tjaldsvæðið. Þar má finna sófa, borð og stóla, salerni og eldhúskrók. Möguleiki er á að taka aðstöðuhúsið frá fyrir einkasamkvæmi í fyrirfram ákveðin tíma yfir daginn eða kvöldið. Nýlega standsettur hoppubelgur er nærri aðstöðuhúsinu.

DEILA