Samið um Næsta skref

Næsta skref upplýsinga- og ráðgjafarvefur sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur rekið undanfarin ár, hefur verið opnaður á ný. Var það gert í kjölfar þess að stjórnvöld og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins náðu samkomulagi um áframhaldandi rekstur vefjarins sem mennta- og barnamálaráðuneytið, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga munu framvegis fjármagna.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hóf verkefnið Næsta skref árið 2013 og hélt vefnum úti fram í maí á þessu ári þegar fjárframlag til rekstursins þraut.

Neyddist stjórn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins þá til að loka vefnum og var sú ákvörðun stjórninni þungbær enda hafði fjöldi notenda margfaldast og nálgast 70.000 á ári hverju.

Í ljósi mikillar notkunar almennings, hjá símenntunarmiðstöðvum og innan formlega skólakerfisins, taldi stjórn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins það ekki valkost að halda vefnum áfram úti með lágmarkstilkostnað.

Þann 27. fyrra mánaðar undirrituðu Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, samning um áframhaldandi rekstur vefjarsins.

Samningurinn er til fimm ára og verður rekstur og þróun vefjarins í höndum Menntamálastofnunar sem jafnframt mun leiða ritstjórn hans. Áætlaður kostnaður við þróun og rekstur vefjarins er 21 milljón króna á ári.

DEILA