Öxin, Agnes og Friðrik

Sagnamaðurinn Magnús Ólafsson mætir með sagnaleik sem hefur slegið í gegn í Kómedíuleikhúsið í Haukadal miðvikudaginn 2. ágúst kl. 20:00.


Á þessu ári eru liðin 193 ár frá síðustu aftöku á Íslandi.

Morð sem leiddu til aftökunnar voru framin aðfaranótt 14 mars 1828.

Hér segir Magnús Ólafsson, sagnamaður af guðs náð, sögu morða sem leiddu til síðustu aftöku á Íslandi. Saga sem hann sagði á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi fyrir nokkrum árum, en í mörg ár hefur hann ferðast með fjölda fólks um þessar söguslóðir í Húnaþingi.

Um sýninguna í Borgarnesi birtust margir lofsamlegir dómar m.a. þessi:


Magnús hóf frásögn sína með því að lýsa hvernig Björn Blöndal sýslumaður skikkaði 150 bændur til að mæta að aftökunni og lét þá standa það nærri að trúlega hefur blóð spýst á þá sem næst stóðu. Enginn mátti undan líta. Það er auðvelt að hrífast með Magnúsi, sem er sagnamaður af bestu gerð, sjór af fróðleik, skýr og skilmerkilegur, rökfastur, kíminn og hefur vísur á hraðbergi til að krydda og skemmta. Það var áhrifaríkt þegar Magnús sagði frá heimsókn sem afi hans fékk 104 árum eftir aftökuna. Komumaður bað afann að hjálpa til að finna bein Agnesar og Friðriks. Afinn taldi það nær vonlaust, hann hefði allan aldur búið á Sveinsstöðum og því oft komið á Þrístapa. Ekkert sæist sem benti til hvar beinin væru grafin. Gesturinn sagðist þá hafa skilaboð frá Agnesi hvar þau væru miðað við höggstaðinn, en þegar hann bætti við að Agnes segði að höfuð þeirra Friðriks séu á sama stað og beinin, hætti afinn að trúa komumanni. Hann sagði að vísu ekkert, en hvernig hann hristi höfuðið og kímdi sagði meir en mörg orð, skrifaði komumaður í dagbók sína. Svo sterk hafði sagan lifað í heila öld að höfuðin hefðu verið flutt í Þingeyrakirkjugarð nóttina eftir aftökuna. Svo trúa þeir sem vilja að Agnes hafi komið skilaboðum til manna meira en öld eftir dauða sinn.

Magnús hefur hljómþýða rödd sem þægilegt er á að hlusta á og engum dylst sem á hann hýðir að hann þekkir söguna um síðust aftökuna á Íslandi eins vel og handabakið á sér, ef ekki betur. Frásagnarstíllinn er rólegur og yfirvegaður og stemningin á Söguloftinu var í senn afslöppuð og heimilisleg. Inn í frásögn sína skýtur Magnús ýmsum skemmtilegum atriðum, svo sem vísum og fleira stuttu skemmtiefni sem í ófá skipti kitlaði hláturtaugar gesta, en alltaf af virðingu fyrir persónum og leikendum sögunnar. Tilgangur frásagnarinnar er enda að fræða fólk og skemmta. Hvort tveggja gerir Magnús listavel og óhætt að mæla heilshugar með Öxinni fyrir alla áhugasama. Kvöldið og umhverfi þess minnti á góða heimsókn sagnamanns á bæinn heima í byrjun minnis míns, – sagði fullorðinn maður sem kom á sýninguna og bætti við. – Gaman að slíkt skuli enn vera til, og koma að norðan. 

DEILA