Fyrsti heimaleikur Vestra á morgun

Fyrsti heimaleikur Vestra í knattspyrnu verður á Olísvellinum á Torfnesi á morgun kl. 14:00 en þá koma Akurnesingar í heimsókn en bæði liðin töpuðu sínum fyrsta leik í deildinni, ÍA fyrir Grindavík 0:2 og Vestri tapaði á Akureyri fyrir Þór 2:1.

Ljóst er að bæði lið ætla sér sigur á morgun svo það er mikilvægt að stuðningsmenn Vestra láti sig ekki vanta á völlinn til að hvetja liðið.

Á miðvikudaginn bauð meistaraflokkur áhugasömum í kynningarboð í Vallarhúsinu.

Hugmyndin með boðinu var að hrista hópinn saman og í leiðinni auka og dýpka tengslin við stuðningsfólk og samfélagið. Er þetta í fyrsta sinn sem haldið er slíkt kvöld á vegum knattspyrnudeildar og tókst það í alla staði mjög vel.

Jón Hálfdán Pétursson kynnti þjálfarahóp liðsins og þar á eftir fóru Jón Hálfdán og Davíð Smári, þjálfari liðsins, yfir leikmannahópinn og fengu gestir góðar og áhugaverðar upplýsingar um hvern og einn liðsmann.

Að kynningu lokinni var boðið upp á veitingar, en þær voru í boði Fasteignasölu Vestfjarða. 

DEILA