Elsta „tré“ á Íslandi allt að 280 ára

Einiþúfa í eyðimörkinni á Hólasandi. Einhvern veginn hefur einir náð að tóra þótt landið blési upp á Hólasandi eftir aldalanga beit. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Að minnsta kosti 250 árhringir hafa verið taldir í eini á Hólasandi norðan Mývatnssveitar. Einirinn sá er þar með elsta „tré“ sem vitað er um að vaxi á Íslandi. Mikla stækkun þarf til að telja megi árhringi í grönnum stofni íslenska einisins. Helsti sérfræðingur landsins í áhringjafræðum starfar hjá Skógræktinni og er nýkominn af ráðstefnu evrópskra árhringjafræðinga í Portúgal.  

Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar, hefur sérhæft sig í viðarfræði og árhringjarannsóknu. Slík árhringjatímatöl gefa mikilvægar upplýsingar um t.d. veðurfar, efnasamsetningu í andrúmsloftinu á hverjum tíma í sögunni og fleira. Þau má líka nota til að aldursgreina muni og hús sem gerð eru úr timbri. Til dæmis er hægt að sjá nákvæmlega hvenær fururnar í norsku stafkirkjunum voru felldar eða eikurnar sem notaðar voru í byggingar sunnar í Evrópu. 

Hérlendis hefur Ólafur meðal annars rannsakað þau birkitré sem ætla má að séu hvað elst hér á landi. Þau eru hartnær 200 ára gömul og standa í Gatnaskógi í Fljótsdal. En af mælingum Ólafs á eininum á Hólasandi er ljóst að einir nær talsvert hærri aldri en birki hérlendis. Einir er mjög útbreidd tegund og breytileg og vex vítt og breitt um norðurhvel jarðar.

Samkvæmt vefnum The Gymnosperm Database eru sagnir um að einir hafi fundist sem hafi verið allt að sex hundruð ára gamall. Því kemur aldur einisins sem Ólafur hefur mælt á Hólasandi ekki með öllu á óvart. Á uppgræðslusvæðinu á Hólasandi má víða finna myndarlegan eini á íslenskan mælikvarða þótt ekki sé hann hávaxinn. Svæðið þar sem einir þessi vex er sunnarlega á Hólasandi og reyndar nær algjör eyðimörk að öðru leyti og þar hefur sandurinn ekki verið græddur upp. Aðstæðurnar hafa orðið til þess að einirinn myndar þarna eins konar þúfur.

Aldur einisins gamla fékkst með því að telja árhringi í dauðum kvisti sem fannst við eina af einiþúfunum syðst á Hólasandi. Árhringirnir eru örmjóir og því þarf að stækka þversniðið mjög mikið upp svo að hægt sé að telja þá, til dæmis með því að skoða þá undir víðsjá. Ólafur segir að með vissu hafi verið taldir 250 árhringir en óhætt sé að ætla að bæta megi áratugum við þá tölu. Því megi áætla að aldur einisins sé um 280 ár. Rannsóknirnar eru unnar í samvinnu við Landgræðsluna.

Af vefsíðunni skogur.is

DEILA