Nýfæddir íbúar fá gjöf frá sveitarfélaginu

Í ár verða nýfæddir íbúar í Húnaþingi vestra boðnir velkomnir í heiminn með lítilli gjöf sem nýbakaðir foreldrar þeirra fá.

Gjöfin samanstendur af samfellu, slefsmekk, bleyjupakka, snuði, pela og sýnishornum af vörum sem henta vel fyrir nýburann og brjóstagjöfina. Gjafirnar eiga að undirstrika áherslur sveitarfélagsins á fjölskylduvænt samfélag.

„Með gjöfinni viljum við undirstrika áherslu okkar á fjölskylduvænt samfélag. Hér í sveitarfélaginu er afar gott umhverfi fyrir barnafjölskyldur og viljum við með þessu halda áfram að styrkja það umhverfi enn frekar. Við vonum að gjöfin komi að góðum notum og hlökkum til að taka vel á móti börnum sem koma í heiminn í sveitarfélaginu á árinu,“ segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri í Húnaþingi vestra.

DEILA