Viðburðastofu Vestfjarða sér um hátíðahöld á vegum Ísafjarðarbæjar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt verksamning við Viðburðastofu Vestfjarða um umsjón og framkvæmd hátíðahalda á vegum Ísafjarðarbæjar, árshátíðar og starfsmannadags árin 2023-2025.

Samkvæmt samningnum tekur Viðburðastofan að sér að skipuleggja, hafa yfirumsjón með og sjá um framkvæmd við eftirfarandi hátíðahöld og/eða skemmtanir á Ísafirði árin 2023-2025:

  • Þjóðhátíðardaginn 17. júní
  • Tendrun jólaljósa á Ísafirði, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri
  • Skíðaviku um páska
  • Árshátíð starfsmanna Ísafjarðarbæjar árið 2024
  • Sameiginlegan starfsdag starfsmanna Ísafjarðarbæjar árin 2023 og 2025

Samningnum var vísað til samþykktar í bæjarstjórn af menningarmálanefnd en í minnisblaði stjórnsýslu- og fjármálasviðs sem lagt var fyrir nefndina, kemur fram að með því að gera samning til lengri tíma og útvista verkefninu í heild sinni er hægt að tryggja stöðugleika í viðburðahaldi bæjarins, auk þess sem það gefur svigrúm til að horfa til lengri tíma hvað varðar búnað og skipulag.

Þá bætir samningurinn yfirsýn bæjarins á kostnaði vegna viðburða og hátíðahalds, auk þess að lækka kostnað vegna einstakra útseldra þátta hjá sveitarfélaginu. 

Í minnisblaðinu kemur einnig fram að skipulag og framkvæmd viðburða á vegum bæjarins hefur breyst þó nokkuð undanfarin ár og kaup á einstakri þjónustu og verkhlutum aukist. 

DEILA