Sílamáfur

Sílamáfur líkist svartbak en er allmiklu minni og nettari. Fullorðinn sílamáfur er dökkgrár á baki og yfirvængjum, með áberandi dekkri vængbrodda, svarta með hvítum doppum. Er að öðru leyti hvítur á fiður.

Ungfugl á fyrsta hausti er allur dökkflikróttur, dekkstur stóru máfanna, líkist silfurmáfi en handflugfjaðrir og stórþökur eru dekkri (enginn „spegill“), stélbandið er breiðara og gumpurinn hlutfallslega ljósari en á silfurmáfi. Búningaskipti á öðru og þriðja ári eru svipuð og hjá silfurmáfi og svartbaki, þeir lýsast að neðan og dökkna að ofan og fá fullan búning á fjórða ári. Kynin eru eins, en karlfuglinn er heldur stærri.

Vængir sílamáfs eru mjórri og odddregnari en svartbaks og ná lengra aftur fyrir stélið aðfelldir. Hann er léttur á sundi. Sílamáfur er félagslyndur og algengur í þéttbýli, spakari en svartbakur. Hann sækir meira í skordýr en aðrir stórir máfar.

Fæða og fæðuhættir:
Hefur fjölbreyttan matseðil, en sandsíli og annar smáfiskur er þar ofarlega á lista. Leitar meira ætis á landi en aðrir stórir máfar og tekur þá m.a. skordýr og orma og fer í berjamó á haustin. Önnur fæða er t.d. hræ, úrgangur, egg og fuglsungar.

Af fuglavefur.is

DEILA