Patreksfjörður – Golfklúbburinn vill virkja

Á Patreksfirði var stofnaður golfklúbbur 14. desember árið 1992. Vorið 1993 var hafist handa við uppbyggingu Vesturbotnsvallar

Á siðasta fundi Bæjarstjórnar Vesturbyggðar var tekið fyrir erindi frá Golfklúbbi Patreksfjarðar dags. 6. febrúar 2023.

Í erindinu er sótt um framkvæmdaleyfi fyrir heimavirkjun í landi Vesturbotns, Patreksfirði. Áætluð stærð er um 10kW, steypt inntaksmannvirki verður í Botnsá, 3m x 1,5m og 110mm plastlögn frá inntaki niður í stöðvarhús sem staðsett verður við Golfskálann.

Lengd lagnar er um 1200m og er áformað að leggja hana samhliða vegslóða sem liggur með ánni. Erindinu fylgir yfirlitsmynd unnin af Verkís, dags. 19. janúar 2023.

Skipulags- og umhverfisráð tók erindið fyrir á fundi 103. sínum þar sem það gerði ekki athugasemd við veitingu framkvæmdaleyfis og vísaði málinu áfram til bæjarráðs. Bæjarráð samþykkti sem landeigandi að Golfklúbbi Patreksfjarðar verði heimilt að virkja Botnsá líkt og fram kemur í umsókninni og vísaði málinu áfram til bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkir samhljóða erindið og felur skipulagsfulltrúa að veita framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

DEILA