Opnað fyrir framtalsskil einstaklinga í dag

Í dag opnar Skatturinn framtalsskil fyrir einstaklinga.

Framtalið verður aðgengilegt á þjónustuvef Skattsins og ber öllum sem náð hafa 16 ára aldri í lok árs 2022 að skila skattframtali og telja fram. Lokaskiladagur er 14. mars og niðurstöður álagningar mun svo liggja fyrir eigi síðar en 31. maí næstkomandi.

Helstu upplýsingar um laun, fasteignir, ökutæki, bankainnstæður, vaxtatekjur, hlutabréf, arð og skuldir eru fyrirfram settar á framtalið. Því ætti að vera fljótlegt og einfalt að fara yfir framtalsupplýsingar, bæta við ef þarf og staðfesta framtalið.

Rafræn skilríki eða veflykill er notaður til að opna framtalið.

Hægt er að panta símtal hjá Skattinum ef aðstoð vantar. Þjónustuvefur Skattsins er www.skattur.is.

DEILA