Húsnæði Grunnskólans á Suðureyri ónothæft vegna myglu

Úttekt EFLU á húsnæði Grunnskólans á Suðureyri sýndi myglu í fjórum af tíu sýnum. Mygla greindist í gólfi og einum útvegg. Hrönn Garðarsdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Suðureyri, segir í viðtali við Ríkisútvarpið að myglan hafa uppgötvast í kjölfar veikinda starfsmanns.

„Það er nú þannig að einn kennari hjá okkur er með ofnæmi fyrir myglusvepp og var farinn að finna veruleg einkenni og er kominn í veikindaleyfi núna. Þá var farið að skoða málið. Við erum líka með eitt astmaveikt barn sem er farið að nota astmapúst þannig að það var svona svolítil vísbending líka,“ segir Hrönn.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem mygla hefur greinst í grunnskólanum, en gerðist síðast árið 2019. Þá var kennslustofa tekin úr notkun eftir að þar fannst mygla.

Skólinn verður lokaður mánudag til miðvikudags í næstu viku á meðan kennarar og starfsmenn pakka niður og undirbúa flutninga en unglingadeildin fer í fjarkennslu, yngsta stigið fær pláss inni á leikskólanum og miðstigið verður í húsnæði úti í bæ. 

DEILA