Fuglavernd fundar um vindmyllur

Fuglavernd verður með málþing í næstu viku. 21. mars, um áhrif vindorkugarða á fugla.

Á málþinginu verður sjónum beint sérstaklega að mögulegum áhrifum vindorkuvera á fuglalíf á Íslandi. Farið verður yfir stórtækar hugmyndir um vindmyllugarða og hvernig staðsetning þeirra skarast við mikilvæg fuglasvæði á landi og sjó og gætu haft neikvæð áhrif á sumar fuglategundir.

Erum við tilbúin að taka slíka áhættu? Gæti opinber stefnumótun og löggjöf komið í veg fyrir umhverfisslys í þessum málum og þá hvernig?

Meðal fyrirlesara eru:

Ib Krag Petersen hjá Árósaháskóla talar um áhrif vindmylla í sjó – sem hann hefur rannsakað um árabil.
Oliver Krone hjá Leibniz Institute for Zoo and Wildlife Research (IZW) í Berlin hefur rannsakað áhrif vindmyllna á fuglalíf um árabil og þá einkum á haferni. Hann er starfsmaður á Náttúrufræðistofnun varðandi rannsóknir á ferðum hafarna með senditækjum.
Aðalsteinn Snæþórsson hjá Náttúrustofu Norðausturlands mun fjalla almennt um áhrif vindmyllna á fugla en hann hefur rannsakað það sérstaklega hér á landi, m.a. við Búrfell og þá notað radar til að greina ferðir fuglanna utan sjónsviðs athuganda – og í myrkri !
Kristinn Haukur Skarphéðinsson hjá Náttúrufræðistofnun Íslands fer yfir áform um vindmyllugarða og skoðar skörun við mikilvæg náttúruverndarsvæði, og mikilvægar farfuglaleiðir.

Þeir sem vilja fylgjast með í streymi opni þennan hlekk: https://vimeo.com/event/3166215


DEILA