Celebs frá Suðureyri

Hljómsveitin Celebs er á meðal þeirra flytjenda sem munu taka þátt í lokakeppni Söngvakeppni Sjónvarpsins annað kvöld.

Hljómsveitina skipa systkinin Valgeir Skorri Vernharðsson, Hrafnkell Hugi Vernharðsson og Katla Vigdís Vernharðsdóttir.

Þessi músíkölsku systkini eru á aldrinum 20-28 ára og koma frá Suðureyri. Systkinin eiga það sameiginlegt að hafa öll unnið keppnina Músíktilraunir.

Þeir Valgeir og Hrafnkell unnu keppnina árið 2015 sem hljómsveitinni Rythmatik. Katla fetaði svo í fótspor þeirra árið 2017 þegar hún vann keppnina með hljómsveitinni Between Mountains.

Árið 2019 ákváðu systkinin svo að sameina krafta sína og stofna hljómsveitina Celebs. Síðan þá hafa þau komið fram á hinum ýmsu hátíðum.

Celebs hefur gefið út þónokkur lög en þeirra mest spilaða lag á Spotify er lagið Kannski hann. Þá hefur sveitin gefið út fjögur tónlistarmyndbönd. Þess má geta að árið 2021 hlaut Celebs tvær tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir rokkplötu ársins og rokklag ársins.

DEILA