CELEBS frá Suðureyri við Súgandafjörð í úrslit í Söngvakeppninni

Hljómsveitin CELEBS er skipuð systkinum frá Suðureyri. Þau taka þátt í úrslitum Söngvakeppninnar sem er í beinni útsendingu á RÚV næsta laugardagskvöld.

Hljómsveitina skipa systkinin Hrafnkell, Valgeir og Katla. Katla er yngst, Valgeir elstur og Hrafnkell í miðjunni en svo eiga þau yngri bróður. „Það er eitt yngra sem ætlar að verða endurskoðandi. Hann er að verða þrettán ára,“ segir Katla um yngsta systkinið. „Það er opið boð fyrir litla bróður að koma í bandið þegar og ef áhugi kviknar á tónlist,“ bætir Hrafnkell við.

Álit finnska söngvarans og Eurovision-sérfræðingsins Thomas Lundin er að einungis tvö lög af þeim fimm sem keppa til úrslita í Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardag, eigi möguleika að komast upp úr undanúrslitum Eurovision í Liverpool í maí. Annars vegar lagið Dancing Lonely með Siggu Ózk og hins vegar Doomsday Dancing með Celebs. Þetta kemur fram í viðtali söngvarans við Vísi.

Um lagið Doomsday Dancing með Celebs segir Thomas „Ég er ánægður með að einmitt þessu lagi var hleypt inn í úrslitin sem „wild card“ eða „eitt lag enn“. Þetta er einhver indie-vitleysa sem höfðar til mín. Ég kemst í partýstuð og vil dansa með liðinu! Með sterkari laglínu hefði þetta verið augljóst uppáhaldslag mitt. Katla Vigdis hljómar eins og Nina Persson í The Cardigans – og það er mikið hrós! Á möguleika á að komast í úrslitin í Liverpool. Fjögur stig af fimm mögulegum.“

DEILA