Atlantshafslax

Útbreiðslusvæði Atlantshafslaxins (Salmo salar) nær yfir norðanvert Atlantshafið. Í Evrópu nær útbreiðslan frá norðurhluta Spánar, upp með strönd Evrópu, yfir Bretlandseyjar, inn í Eystrasaltið, upp með Noregsströndum og að Kólaskaga í Rússlandi. Svæðið nær yfir Ísland og suðurhluta Grænlands, til austurstrandar N-Ameríku, frá Labrador í norðri til Main í suðri. Víðast hvar hafa bæði stofnstærðir og útbreiðslusvæði dregist saman á síðustu áratugum.

Á Íslandi finnast laxastofnar í ám í öllum landshlutum. Samkvæmt veiðitölum þá eru flestir laxar fangaðir í ám á Vesturlandi og vatnasvæði Hvítár í Borgarfirði er þar gjöfult með um 20% af stangveiðinni. Dæmi um önnur gjöful laxasvæði eru Húnavatnssýslur, Þingeyjarsýslur og Vopnafjörður.

Lífsferill laxins er flókinn og skiptist milli ferskvatns og sjávar. Lax hrygnir í fersku vatni að hausti, frá miðjum október og fram í desember. Hængar mæta fyrr á hrygningarsvæðin en hrygnurnar sem koma síðar og para sig við hæng á sínu yfirráðarsvæði. Straumhraði á hrygningarsvæðum er oft á milli 0,4-0,5 m/s og dýpi á bilinu 20 – 50 cm dýpi. Botngerðin einkennist af grófum malarbotni þar sem kornastærð er um 2cm að meðaltali. Hrygnurnar grafa riðaholur í malarbotn árinnar og gjóta þar. Áður en rótað er aftur yfir hrognin sprautar hængurinn svilum sínum yfir þau.

Að vori klekjast hrognin út og seiðin helga sér svæði á botninum, þar sem þau síðan dvelja að jafnaði næstu tvö til fjögur árin. Fyrst eftir klak nærast seiðin á kviðpokanum, þá um 2,5 cm á lengd. Þegar um þriðjungur er eftir af forðanæringu kviðpokans færa seiðin sig úr mölinni og fara að nærast á fæðu í vatnsbolnum. Á Íslandi dvelja seiðin í 2 – 6 ár áður en gönguseiðastærð er náð, en gönguseiðaaldur er m.a. háður hitafari og frjósemi vatnsfalla.

Á haustin þurfa seiðin að hafa náð lágmarksstærð (> 9 cm) og þroska og fara þá í gegnum ferli sem nefnist smoltun. Það ferli er undirbúningur fyrir það að yfirgefa ferskvatnið og ganga til sjávar, þá er talað um seiðin sem gönguseiði. Á þeim tíma verða bæði breytingar á lífeðlisfræði og hegðun seiðanna. Helsta sjáanlega breytingin er að seiðin fá á sig silfraðan blæ með dökkum sporð- og ugga–endum. Hegðunin breytist í þá átt að þau hætta að verja sitt búsvæði en hópa sig þess í stað saman og leita undan straumi til sjávar. Þetta lokastig ferilsins, þegar seiðin leita til sjávar, á sér stað að vori þegar hitastig árvatnsins hefur náð ákveðnu lágmarki. Í sjó dvelur laxinn í eitt til þrjú ár og tekur þá út mestallan vöxt sinn.

Ekki er vitað með vissu hvar í Atlantshafinu íslensku laxastofnarnir dvelja en líkur hafa verið leiddar að því að stofnar af SV-landi dvelji djúpt suð-vestur af landinu á sínu fyrsta ári í hafi og hefur verið sýnt fram á að svo sé með rafeindamerkjum sem skrá hitafar og dýpi en nokkur slík merki endurheimtust úr sleppingum í Kiðafellsá í Hvalfirði. Einnig virðast stórlaxar á síðari ári sínu í sjó leita á beitarsvæði við Grænland. Eftir dvöl í hafi leitar fullorðinn kynþroska lax upp í sína heimaá til hrygningar og gengur lax upp í ár á Íslandi frá enda maí fram í september. Laxinn dvelur svo í ánni fram aðhrygningu.

Eftir hrygningartíðina er laxinn rýr enda hefur hann ekkert étið frá því að hann gekk upp ána og öll orka hefur nýst í þroskun kynkirtla. Um 80 – 100% af laxinum drepst að hrygningu lokinni. Þeir laxar sem lifa af ganga aftur til sjávar, kallast þá hoplaxar, og eiga möguleika á að ganga aftur til hrygningar. Algengast er að laxar sem ná að ganga aftur til hrygningar gangi til sjávar snemma vors en gangi aftur inn í ána eftir stutta sjávardvöl samsumars, en lengri sjávardvöl er einnig þekkt.

Af vefsíðunni hafogvatn.is

DEILA