Ánægja með Loftbrú og nýtingin góð

Mikill meirihluti þeirra sem nýtt hefur Loftbrú frá því að henni var komið á fót er ánægður með úrræðið en telur ástæðu til að hækka afsláttinn og fjölga ferðum sem séu innifaldar.

Langflestir nýttu ferðirnar til þess að heimsækja ættingja og vini en margir nota Loftbrú einnig til að sækja heilbrigðisþjónustu, í tengslum við íþróttaiðkun og vegna skólasóknar.

Þetta er meðal þess sem fram kom í rannsókn sem Austurbrú vann í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga á landsbyggðinni og Vegagerðina árið 2022. 

Um 76% þátttakenda höfðu nýtt sér Loftbrú, mestmegnis Íslendingar en niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að kynna þurfi úrræðið betur fyrir íbúum af erlendum uppruna. 

Samkvæmt gögnum Vegagerðarinnar um Loftbrú var heildarfjöldi þeirra sem nýtti sér hana 57.059 árið 2021. Um helmingur flugfarþega var með lögheimili á Norðurlandi eystra eða á Austurlandi.

Vegagerðin hefur umsjón með Loftbrú fyrir hönd ríkisins og sinnir öllu eftirliti og umsýslu henni tengdri. Bakendakerfi Loftbrúar er hýst á island.is en heimasíðan loftbru.is er rekin af upplýsinga- og þjónustuveitunni Stafrænu Ísland.

Einstaklingar sem geta nýtt Loftbrú hafa lögheimili í 96 póstnúmerum á Vestfjörðum, hluta af Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi, Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Afsláttarkjörin, sem nema 40% af heildarverði miða, eiga að nýtast íbúum svæðanna til að sækja sér miðlæga þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og til að heimsækja ættingja og vini.

DEILA