Vísnabókin í Vísindaporti

Föstudaginn 17. febrúar mun Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir flytja erindið „Vísnabókin 75 ára: Vinsældir, áhrif og erindi“ í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða. 

Árið 2021 varð Vísnabókin ástsæla 75 ára og árið áður kom út ný og vegleg útgáfa bókarinnar (2020), sú þrettánda frá árinu 1946 þegar bókin leit fyrst dagsins ljós.

Bókin hefur orðið lífsseig og eldri kynslóðir sjá til þess að Vísnabókin sé til á heimilum unga fólksins í fjölskyldunni og hún er mikið gefin í sængur- og skírnargjafir. Má ætla að fjórar til fimm kynslóðir barna hafi nú kynnst þessari ágætu bók.

Í erindinu verður rýnt í innihald afmælisbarnsins og velt upp spurningum um efnisvalið, hlutverk bókarinnar, áhrif hennar og erindi við nútímabörn. Í því sambandi verður sjónum beint að því efni Vísnabókarinnar sem mest er haldið að ungum börnum í öðrum vísnabókum fyrir börn og á rafrænum efnisveitum, meðal annars á Spotify.

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir er fyrrverandi lektor í íslensku við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún býr á Ísafirði í vetur og fæst við ritstörf, er meðal annars að grúska í vestfirskum rótum sínum.

Vísindaportið er opið öllum og hefst stundvíslega klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs á 2. hæð í Vestrahúsinu. Erindið fer fram á íslensku.

DEILA