Þjóðlendurannsóknir á Þjóðskjalasafni

Þjóðskjalasafn Íslands auglýsir nú eftir 1-2 sérfræðingum í tímabundin störf til allt að tveggja ára í þóðlendurannsóknum. Starfið felst einkum í vinnu við gagnaöflun fyrir óbyggðanefnd. 

Í upphafi árs 2023 eru tveir landshlutar til meðferðar hjá óbyggðanefnd, þ.e. svonefnt svæði 10B, Ísafjarðarsýslur, og svæði 11, Austfirðir.

Kerfisbundinni gagnaöflun vegna svæðis 10B er lokið en hún stendur yfir vegna svæðis 11.

Óbyggðanefnd áformar að kveða upp úrskurði vegna svæðis 10B á fyrri hluta ársins 2023. Að óbreyttu er stefnt að uppkvaðningu úrskurða vegna svæðis 11 árið 2024.

Þá reiknar óbyggðanefnd með því að hefja á árinu 2023 málsmeðferð á svonefndu svæði 12, þ.e. eyjum og skerjum umhverfis landið. Stefnt er að því að störfum óbyggðanefndar ljúki árið 2024.

Á Þjóðskjalasafni hefur þegar farið fram nokkur undirbúningsvinna vegna þessa, einkum við skráningu dóma- og þingbóka sýslumanna og jarða- og kirknabréfa. Áfram verður haldið með þá dómabókaskráningu til að búa í haginn fyrir gagnaöflun um eyjar og sker umhverfis landið. Af sömu ástæðu verður haldið áfram efnisskráningu jarða- og kirknabréfa.

DEILA