Strangari reglur og nýir hættuflokkar

Evrópusambandið áformar að gera breytingar á reglum um flokkun, merkingu og umbúðir hættulegra efna og efnablandna (CLP). Tilgangur breytinganna er að auðvelda neytendum val á efnavörum með skýrari upplýsingum um áhættu.

Ráðgert er að fjölga hættuflokkum sem notaðir eru til að flokka efnavörur og liggja til grundvallar þegar þær eru merktar. Flokkarnir sem á að bæta við varða efni sem eru hormónaraskandi eða þrávirk.

Markmiðið er að greina betur hættu sem stafar af efnunum og koma upplýsingum á framfæri til neytenda með viðeigandi aðvörunum og leiðbeiningum.

Hormónaraskandi efni geta fundist í ýmsum neytendavörum, líkt og málningu, hreinsiefnum og snyrtivörum. 

Auk nýju hættuflokkanna er ráðgert að auka kröfur til merkinga með því að innleiða lágmarksstærð texta á hættumerkingum og gera upplýsingar markvissari. Áætlað er að innleiða kröfu um merkingar á vörur sem eru seldar sem áfyllingar á áfyllingarstöðvum. Þetta gildir meðal annars um málningu og þvottaefni.

Einnig er ráðgert að gera skýrari kröfur varðandi merkingar vara sem eru seldar á vefsíðum ásamt að greiða leið fyriri stafrænar merkingar til viðbótar við hefðbundnar merkingar.

Áformaðar breytingar á reglugerðinni eru nú í opnu samráðsferli. Öllum er frjálst að koma ábendingum á framfæri í gegnum vef framkvæmdastjórnar ESB til 30. mars 2023.

DEILA