Stóri–Laugardalur er bær og kirkjustaður við norðanverðan Tálknafjörð. Áður fyrr var búið í Stóra–Laugardal.
Stóra–Laugardalskirkja er eldri sóknarkirkja Tálknfirðinga en Tálknafjarðarkirkja var vígð árið 2002.
Stóra–Laugardalskirkja var vígð annan sunnudag í níuviknaföstu þann 3. febrúar árið 1907 af þáverandi sóknarpresti sr. Magnúsi Þorsteinssyni sem sat í Selárdal í Arnarfirði. Kirkjan er stokkbyggt timburhús, teiknuð og tilsniðin í Noregi. Bygging hennar hófst sumarið 1906 en efnið var flutt inn frá Noregi og kostaði Guðmundur Jónsson bóndi í Laugardal smíðina en yfirsmiður var Jón Jónsson timburmeistari.
Kirkjan tekur 120 manns í sæti og er prédikunarstóllinn einn af merkum gripum hennar. Sagt er að hann hafi staðið í dómkirkjunni í Óðinsvéum í Danmörku og að danskur kaupmaður hafi gefið kirkjunni hann. Kaleikur kirkjunnar er gylltur og forn og á annarri kirkjuklukkunni er áletrunin: „Torolfer Ulafsen, anno 1701″.
Altaristafla kirkjunnar er eftirlíking af síðustu kvöldmáltíðinni eftir Leonardo da Vinci.
Orgel kirkjunnar er einnig hinn merkasti gripur en það var smíðað af Ísólfi Pálssyni og er sennilega frá því um 1920.
Stóra–Laugardalskirkja er friðuð frá 1. janúar 1990.
Í kaþólskri tíð voru kirkjur í Stóra–Laugardal helgaðar Maríu guðsmóður og heilögum Nikulási.
Stóra–Laugardalskirkju var þjónað af Selárdalsprestum en reiðvegur liggur frá Stóra–Laugardal til Ketildala við Arnarfjörð niður í Fífustaðadal. Það er annexíuvegur Selárdalspresta að Stóra–Laugardal en kirkjan var annexía frá Selárdal til 1907. Annar vegur liggur upp frá Krossdal, ysta bæ við norðanverðan Tálknafjörð, um Selárdalsheiði og niður í Selárdal.
Ýmsar sögur eru til um eignarhald Stóru–Laugardalskirkju en Einar Benediktsson mun hafa eignast kirkjuna á sínum tíma, sem og jörðina sem Tálknafjarðarkirkja stendur á, en mun aldrei hafa greitt fyrir eignirnar.
Þann 29. september 2007 var 100 ára afmælis kirkjunnar minnst með guðsþjónustu að viðstöddum prófasti, sóknarpresti og fyrri þénurum. Af því tilefni voru kirkjunni gefnir sérstakir viðhafnarstólar.
Af vefsíðu Vesturbyggðar