Söfnun gagna með aðstoð borgara

Jiří Pánek

Föstudaginn 10. mars mun Jiří Pánek flytja erindið „Söfnun gagna með aðstoð borgara“ í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða.

Vísindamenn þurfa gjarnan að nota dýr og flókin tæki við söfnun gagna en í landfræðilegum rannsóknum eru fjölmörg tækifæri til að nýta aðstoð almennra borgara við gagnaöflun!

Staðbundin þekking heimamanna á umhverfi og náttúru er oft vanmetin í landfræðilegum rannsóknum og í þessu erindi fer Jiri yfir rannsóknir sínar frá Reykjavík og Seyðisfirði.

Hann mun kynna hvernig hann nýtti þátttöku almennra borgara í sínum rannsóknum. Þessi aðferð hentar vel þegar skoða á samfélagsþróun með kortlagningu þar sem tilfinningar og upplifanir einstaklinga koma við sögu.

Jiří Pánek er landfræðingur frá Palacký háskólanum í Olomouc í Tékklandi. Rannsóknir hans beinast að kortlagningu samfélagsins og notkun tilfinningakorta í samfélagsþróun. Hann hefur reynslu af kortlagningu í Kenýa og Suður-Afríku og lærði notkun landfræðilegra upplýsingakerfa á Indlandi.

Árið 2017 lauk hann námi í borgarfræðum við háskólann í Pittsburgh. Árið 2021-22 var hann Fulbright-Masaryk félagi við North Carolina State University. Nýjasta verkefni hans beinist að tilfinningakortum og rafrænni þátttöku í samfélagsþróun.

Vísindaportið er opið öllum og hefst stundvíslega klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða á 2. hæð. Erindið fer fram á ensku.

DEILA