Sjógöngufiskar og laxalýs í Jökulfjörðum

Frá Leirufirði.

Náttúrustofa Vestfjarða kannaði sjávarlúsaálag á villtum laxfiskum í Leirufirði í Jökulfjörðum sumarið 2021 með styrk frá Fiskræktarsjóði.

Með því að kanna sjávarlúsaálag á svæði þar sem ekkert laxfiskaeldi er til staðar er hægt að fá fram upplýsingar um náttúrulegt sjávarlúsaálag. Með því að bera saman grunngögn um náttúrulegt sjávarlúsaálag sem safnað er núna við gögn sem safnað verður í framtíðinni er betur hægt að segja til um hvaða áhrif aukið fiskaeldi í Ísafjarðardjúpi hefur á sjávarlúsaálag á villtum laxfiskum í Jökulfjörðum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að á þessu afskekkta svæði er töluverður fjöldi sjóbleikja (Salvelinus alpinus) svipað og við Kaldalón, en aðeins fengust sjóbleikjur í þessari rannsókn.

Engar fiskilýs (Caligus elongatus) fundust á þeim og laxalúsaálag (Lepeophtheirus salmonis) var lítið og mældist lægra í Leirufirði en á öðrum svæðum á Vestfjörðum.

Þetta er fjórða skýrslan sem Náttúrustofan gefur út um lúsasmit villtra laxfiska en hingað til hafa rannsóknir stofunnar á fjölda sjávarlúsa á villtum laxfiskum einkum verið í nágrenni sjókvía. Allar skýrslurnar er hægt að finna á heimasíðu Náttúrustofu.

Þess má geta að Náttúrustofan fékk annan styrk á síðastliðnu ári frá Umhverfissjóði sjókvíaeldis og er með í vinnslu verkefni um Arnarfjörð þar sem borin eru saman tvö svæði innan fjarðarins. Á þessu ári munu vöktunarverkefni Náttúrustofunnar ná til Patreksfjarðar, Tálknafjarðar, Dýrafjarðar og Kaldalóns á Vestfjörðum auk Seyðisfjarðar og Stöðvarfjarðar á Austurlandi.

DEILA