Nú skal ruslið flokkað

Í ársbyrjun 2023 tóku gildi ný lagaákvæði í lögum um meðhöndlun úrgangs, nefnd í daglegu tali hringrásarhagkerfi, og ber sveitarfélögum á Íslandi að innleiða það hvert fyrir sig. Það sem hefur hvað mest áhrif á íbúa er þátttaka þeirra í kostnaði og skylda heimila til flokkunar úrgangs. Sveitarfélögum ber nú skylda til að innheimta sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs.

Að undangengnu útboði hafa sveitafélögin Vesturbyggð og Tálknafjörður samið við Kubb ehf. um að annast söfnun úrgangs frá heimilum í sveitarfélögunum.

Meðferð úrgangs er meðal mikilvægustu umhverfismála og stór hluti í þeirri umhverfisvakningu sem almennt er að eiga sér stað í samfélaginu.
Sveitafélögin ákváðu að fara í metnaðarfullar breytingar á sorphirðukerfi sveitafélaganna sem felst í eftirfarandi:

Barðaströnd: Bætt er við 240 l tunnu til að safna blönduðum endurvinnsluefnum. Ekki gert ráð fyrir tunnu undir lífrænan úrgang að sinni.

Patreksfjörður og Bíldudalur: Bætt er við 120 l tunnu undir lífrænan heimilisúrgang og innra hólfi undir plast í tunnu fyrir endurvinnsluefni.

Tálknafjörður: Bætt er við 120 l tunnu undir lífrænan heimilisúrgang og 240 l tunnu með 55 l innrahólfi til að flokka
endurvinnslefni í sundur í pappír og pappa annars vegar og plast hins vegar.

Til að kynna verkefnið boða Vest­ur­byggð og Tálkna­fjarð­ar­hreppur til fjög­urra íbúa­funda vegna úrgangs­mála.

Fundirnir verða sem hér segir:

 • Barðaströnd: Miðvikudaginn 1. mars kl. 16 í félagsheimilinu Birkimel.
 • Patreksfjörður: Miðvikudaginn 1. mars kl. 20 í félagsheimili Patreksfjarðar.
 • Tálknafjörður: Fimmtudaginn 2. mars kl. 16 í Tálknafjarðarskóla.
 • Bíldudalur: Fimmtudaginn 2. mars kl. 20 í félagsheimilinu Baldurshaga.

Dagskrá:

 1. Erindi Kubbs um sorpflokkun og -hirðu.
 2. Borgað þegar hent er: Breytingar á lögum og reglum og áhrif þeirra á íbúa.
 3. Umræður og hugmyndavinna:
  – Hvernig getum við minnkað sorpmagn?
  – Hvernig getum við aukið endurnýtingu?
  – Hvernig getum við lækkað kostnað?
DEILA