Mikill fjöldi umsagna um svæðaskiptingu strandveiða

Smábátar í höfninni á Vatneyrinni á Patreksfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjöldi umsagna um drög að frumvarpi um breytta veiðistjórn á strandveiðum er 129 og eru flestar frá smábátasjómönnum..  

Ljóst er að hagsmunaaðilar og smábátasjómenn eru langt frá því að vera sammála um fyrirkomulagið eins og sést á umsögnum þeirra.

Landsamband smábátaeigenda vill að áfram verði byggt á núverandi kerfi.  Þar er m.a. bent á leiðir til að tryggja betur svo ekki þurfi að koma til stöðvunar veiða áður en tímabilinu lýkur 31. ágúst og að veiðidagar verði þannig 48 dagar.

Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir með heimastjórn Borgafjarðar varðandi það að besta fyrirkomulag strandveiða væri að tryggja 48 daga til veiða ár hvert. Meðan svo er ekki er framkomin hugmynd skárri kostur en núverandi kerfi fyrir C-svæði/Norðausturland.

Jafnframt er vakin athygli á að af hálfu heimastjórna Múlaþings á Borgarfirði, Djúpavogi og Seyðisfirði var skerðingu aflaheimilda til strandveiða fiskveiðiárið 2021/2022 mótmælt harðlega.

Hafna- og atvinnumálaráð Vesturbyggðar leggst gegn breytingum á frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða sem nú eru í umsagnarferli. Eðlileg krafa er að lögin og breytingar á þeim stuðli að jafnræði á milli svæða, tillagan eins og hún er sett fram mun ekki leiða til jöfnuðar á milli svæða heldur auka á óánægju og átök milli svæða líkt og innkomnar umsagnir gefa til kynna. Hafna- og atvinnumálaráð hvetur ráðherra og atvinnuveganefnd til að fastsetja ákveðinn dagafjölda pr. mánuð fyrir hvern og einn bát. Heildarfjöldi daga gæti verið sá sami á öllum bátum á landinu en mismunandi pr. mánuð eftir landsvæðum.

Strandveiðifélagið Krókur hafnar tilraunum þessum í umsögn sinni og hvetur þingmenn til að láta ekki blekkjast í tilraunum ráðherra og ráðuneytis til að viðhalda spennu milli svæða og koma á mismunun á tækifærum í strandveiðikerfinu.

 Bátafélagið Ægir í Stykkishólmi styður fyrirkomulag strandveiða eins og það er í dag, fjórir dagar í viku, allt að 12 róðrardagar í mánuði í fjóra mánuði (maí-ágúst) og skorar á ráðherra að tryggja að aflaheimildir dugi til að strandveiðisjómenn fái að stunda sína atvinnu út ágústmánuð.

DEILA