Hvað eru margir fuglar á Íslandi á veturna?

Árstíðaskipti eru mjög eindregin á Íslandi eins og víðast hvar á norðlægum slóðum.

Hér á landi verpa að jafnaði ríflega 80 tegundir varpfugla og er meirihluti þeirra (47) farfuglar, annað hvort að öllu (25 tegund) eða að mestu leyti (22 tegundir).

Þessir fuglar yfirgefa landið síðsumars eða á haustin og dvelja vetrarlangt í öðrum löndum eða á úthafinu fjarri Íslandsströndum.

Aðrar tegundir eru staðfuglar og þreyja hér veturinn að öllu (24 tegundir) eða mestu leyti (10 tegundir).Um 56 tegundir íslenskra varpfugla hafa hér vetursetu í einhverjum mæli. Inni í þeirri tölu eru einnig þær tegundir sem eru farfuglar að mestu, til dæmis tjaldur og rauðhöfðaönd en vetrarstofnar þeirra hér skipta þúsundum fugla, þótt meirihlutinn fari af landi brott. 

Auk þeirra koma hingað nokkrar tegundir vetrargesta, aðallega frá norðlægari löndum. Einnig má nefna flækingsfugla og ýmsar tegundir íslenskra varpfugla sem eru hér sárasjaldgæfar á veturna og mætti fremur kalla eftirlegukindur og sjást hér fram eftir desember og jafnvel lengur.

Í vetrarfuglatalningum Náttúrufræðistofnunar Íslands kringum áramótin má því búast við um eða yfir 80 tegundum fugla. Reyndar hafa sést hátt í 140 tegundir í þessum talningum.

Gróflega áætlað má ætla að hér dvelji að jafnaði um tvær milljónir fugla yfir háveturinn og er þá átt við þær tegundir sem bundnar eru við land, fjöru og grunnsævi. Þetta eru aðallega æðarfuglar (um 850 þúsund), snjótittlingar (yfir 300 þúsund) og rjúpur (afar sveiflóttur stofn en oft mörg hundruð þúsund fuglar).

Mun fleiri fuglar geta verið á hafinu umhverfis landið, það er í íslensku efnahagslögsögunni. Þetta eru tegundir eins og fýll, rita og ýmsar tegundir svartfugla. Stofnar þeirra eru hver um sig milljónir einstaklinga og eru það bæði íslenskir varpfuglar og eins fuglar annars staðar frá.

Af visindsvefur.is

DEILA