,,Heldurðu Þræði?“

Háskóli Íslands í samstarfi við Textílmiðstöð Íslands býður upp á nýsköpunarnámskeið sem tengist textílvinnslu.

Námskeiðið nefnist „Heldurðu þræði?“ og hefst 7. febrúar – með kynningarfundi. Námskeiðið er hugsað fyrir þau sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd og hefja eigin rekstur með áherslu á textíl eða eru í atvinnurekstri og vilja auka rekstrarþekkingu sína.

Námskeiðið er haldið í tengslum við evrópska rannsókna- og þróunarverkefnið CENTRINNO sem námsbraut í kynjafræði við Háskóla Íslands og Textílmiðstöð Íslands taka þátt í. Námskeiðið er endurgjaldslaust. 

Þetta er í annað sinn sem námskeiðið er haldið, en það var líka í boði á síðasta misseri og voru þátttakendur um 30 talsins.

Þátttakendur fá margháttaðan stuðning og fræðslu á námskeiðinu, m.a. við að búa til heildstæða viðskiptaáætlun í kringum hugmyndir sínar. Þar verður einnig farið yfir stefnumótun, stjórnun og starfsmannamál, markaðssetningu og hagnýtingu samfélagsmiðla til að koma vörum sínum á framfæri en jafnframt er boðið upp á fræðslu um hringrásarhagkerfið, jafnréttisáherslur og umhverfismál.

Námskeiðið stendur yfir í níu vikur og lýkur með heimsókn í TextílLabið á Blönduósi.

Kennt verður í fjarnámi á þriðjudögum klukkan 13:30 – 15:00. Kennslan er tekin upp og þau sem skrá sig geta fengið aðgang að upptökunum.

DEILA