Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnar í gær þau áform að sameina tíu af stofnunum ráðuneytisins í þrjár öflugar stofnanir.
Stofnanir á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra verða þá:
- Náttúruverndar- og minjastofnun – þar sameinast Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun
- Náttúruvísindastofnun – þar sameinast Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands, ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn
- Loftslagsstofnun – þar sameinast Orkustofnun og öll svið Umhverfisstofnunar utan náttúruverndarsviðs
Eitt af markmiðunum með sameiningunni er að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu.
Þær stofnanir sem heyra undir ráðuneytið eru: Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Landmælingar Íslands, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn, Orkustofnun, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Úrvinnslusjóður, Vatnajökulsþjóðgarður, Veðurstofa Íslands og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.
Stofnanir ráðuneytisins í dag eru 13 með um 600 starfsmenn á um 40 starfsstöðvum víða um land og eru 61% starfanna á höfuðborgarsvæðinu.