Bolludagur næsta mánudag

Bolludagur er mánudagurinn í Föstuinngangi 7 vikum fyrir Páska en Föstuinngangur kallast síðustu þrír dagarnir fyrir Lönguföstu sem hefst á miðvikudegi með Öskudegi.

Algengt var í Kaþólskum sið að fastað væri á kjöt dagana tvo fyrir Lönguföstu og var það boðið í Þjóðveldislögunum. Önnur merki um siði tengda þessum degi er ekki að finna fyrr en á 19. öld. Í Sturlungu og Biskupasögum er talað um „að fasta við hvítan mat“ (mjólkurmat) í Föstuinngang.

Líklegt er að menn hafi nýtt sér þessa daga fyrir langt föstutímabil til að gæða sér á ýmsu góðgæti ekki síst brauðmeti. Í Dönskum heimildum frá því um 1700 er talað um hveitibollur sem muldar eru og hrærðar með mjólk og smjöri og borðaðar í Föstuinngang. Bolluát og feitmetisát virðist á öðrum Norðurlöndum reyndar hafa verið meir bundið við þriðjudaginn næsta í föstu. En á Íslandi hafa menn bundið þennan sið við mánudaginn, sennilega til að trufla ekki hefðbundinn matarsið Sprengidagsins. Á síðustu áratugum hefur bolluátið einnig færst að stórum hluta yfir á sunnudaginn.

Flengingar og bolluát berst líklega til Íslands fyrir Dönsk eða Norsk áhrif á síðari hluta 19. aldar, líklega að frumkvæði þarlendra bakara sem settust hér að. Heitið Bolludagur er ekki þekkt fyrr en eftir aldamót og mun orðið til hérlendis. Upphaflega bárust siðirnir að slá köttinn úr tunnunni og að marsera í grímubúningum frá Danmörku fyrir 1870 en lagðist víðast hvar af eftir aldamótin.

Þessir siðir héldust samt áfram á Akureyri en 1915 færðust þeir yfir á Öskudaginn og hafa síðan smásaman breiðst þaðan út aftur sem öskudagssiðir. Heitið Bolludagur sést fyrst á prenti 1910 en annars var dagurinn oft kallaður Flengingardagur.

Á Ísafirði, Bolungarvík og nágrenni færðust ekki allir siðir Bolludagsins yfir á Öskudag. Þar viðhélst sá siður að strákar klæddu sig upp og gengu í hús með leik, söng og betli líkt og krakkar gera á Öskudaginn. Þar heitir þessi dagur Maskadagur og má rekja uppruna hanns aftur til síðarihluta 18. aldar líkt og Bolludaginn og hefur hann haldist síðan þótt ekki séu til heimildir frá öllum tímum.

Af vefsíðunni islensktalmanak.is

DEILA