Ársþing Knattspyrnusambandsins á Ísafirði á laugardag

Íþróttahúsið Torfnesi þar sem næsta KSÍ þing verður haldið.

Þingið í ár er haldið í Íþróttahúsinu á Torfnesi og er þeim sið þannig áfram haldið að vera með knattspyrnuþing reglulega utan höfuðborgarsvæðisins.

Það er KSÍ afar mikilvægt að halda því áfram og færa þannig þingið frá höfuðborgarsvæðinu og nær landshlutunum, enda er knattspyrna leikin um allt land. Á síðasta áratug hafa t.a.m. þing verið haldin á Akureyri, í Vestmannaeyjum, og í Ólafsvík. Í lögum KSÍ kemur fram að knattspyrnuþing fari með æðsta vald í málefnum knattspyrnuhreyfingarinnar.

Stjórn KSÍ hvetur aðildarfélög til að fjölmenna á þingið á Ísafirði og sýna í verki styrk og samstöðu þessarar stóru hreyfingar.

Frestur til að skila inn framboðum fyrir 77. ársþing KSÍ, í stjórn og varastjórn, er nú liðinn.  Kjörnefnd hefur komið saman og yfirfarið framkomin framboð.

Alls bárust fjögur framboð í stjórn (fjögur sæti) og eru þau Halldór Breiðfjörð Jóhannsson, Helga Helgadóttir, Tinna Hrund Hlynsdóttir og Unnar Stefán Sigurðsson því sjálfkjörin.

Þrjú framboð bárust innan tilskilins viðbótarfrests í varastjórn (þrjú sæti) og eru þau Hildur Jóna Þorsteinsdóttir, Jón Sigurður Pétursson og Sigrún Ríkharðsdóttir því sjálfkjörin.

DEILA