Veggöng á Íslandi

Hérlendis voru fyrstu veggöngin grafin árið 1948 í gegnum Arnardalshamar milli Ísafjarðar og Súðavíkur, þau voru einungis 30 m löng og voru svo breikkuð árið 1995 og eru enn í notkun.

Frá þeim tíma hefur verið unnið að jarðgangagerð á landinu með nokkrum hléum til að byrja með en frá því að Múlagöng til Ólafsfjarðar voru opnuð árið 1990 og þar til Dýrafjarðargöng voru tekin í notkun árið 2020 var nokkuð samfelld jarðgangagerð í landinu.  Að jafnaði voru grafnir um 2 km á ári á þessu tímabili.

Á vegakerfinu í dag eru 12 jarðgöng sem alls eru 64 km að lengd.

Auk þeirra hafa verið grafin Oddskarðsgöng sem voru aflögð þegar Norðfjarðargöng voru tekin í notkun og jarðgöng undir Húsavíkurhöfða sem ekki eru opin almennri umferð.

Árið 2000 var samþykkt á Alþingi Jarðgangaáætlun þar sem horft var til langs tíma og fjölmargir jarðgangakostir teknir til skoðunar. Þar var einnig tekin afstaða til þess hvar næstu jarðgöng skuli gerð, og áætlun lögð fram um framkvæmdatíma og fjármögnun. Þeirri jarðgangaáætlun hefur verið fylgt að mestu leyti.

Í samgönguáætlun 2020-2034 sem samþykkt var á Alþingi 29. júní 2020 er gerð grein fyrir forgangsröðun og fjármögnun næstu jarðgangakosta. Samkvæmt því eru næstu jarðgöng Fjarðarheiðargöng til Seyðisfjarðar og í framhaldinu eru Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng.

Veggöng á Íslandi
DEILA