Umfangsmiklar breytingar á barnabótum um áramótin

Frá heimsókn leikskólanna í skemmtiferðaskip á Ísafirði.

Umfangsmiklar breytingar verða á barnabótum um áramótin en þá tekur gildi fyrri hluti kerfisbreytinga sem samþykktar voru á liðnu þingi. Síðari hluti breytinganna tekur gildi 1. janúar 2024.

Breytingarnar eru í senn til þess fallnar að auka stuðning við barnafjölskyldur en um leið fela þær í sér töluverða einföldun á barnabótakerfinu. 

Um 3.000 fleiri fjölskyldur fá barnabætur vegna breytinganna, auk þess sem grunnfjárhæðir og skerðingarmörk hækka þegar breytingarnar hafa tekið að fullu gildi, en í frétt á vef ráðuneytisins er nánar er fjallað um breytinguna.

Ein veigamesta breytingin sem tekur gildi á nýju ári er að sama fjárhæð mun fylgja öllum börnum, að gefinni fjölskyldustöðu foreldra, en verður ekki mismunandi milli frumburða og annarra barna líkt og verið hefur. Breytingin eykur stuðning til barnafjölskyldna en sér í lagi einstæðra foreldra þar sem fjárhæðir til þeirra hækka sérstaklega milli ára umfram hækkunina sem felst í jöfnun fjárhæða með hverju barni.

Viðbótarbarnabætur sem greiddar eru sérstaklega til barna undir 7 ára aldri óháð hjúskaparstöðu lækka aftur á móti milli ára.

Dregið verður úr skerðingum vegna tekna en efri skerðingarmörk verða afnumin fyrir bæði einstæða foreldra og foreldra í sambúð og verða því ein skerðingarmörk í stað tveggja fyrir hvorn hóp eftir breytingarnar.

Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta 2023Einstætt foreldriForeldrar í sambúð
Skerðingarmörk4.750.0009.500.000
Fjárhæð með hverju barni440.000295.000
Viðbótarbarnabætur með börnum yngri en 7 ára138.000138.000
Skerðingarhlutföll með hverju barni. Barnafjöldi: 1/2/3+4%/6%/8%4%/6%/8%
DEILA