Tonn á móti tonni

Hlutverk skóga í kolefnishringrásinni er að fjarlægja koltvísýring úr andrúmsloftinu sem lostnað hefur t.d. við rotnun lífrænna efna eða vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Trén binda kolefnið í vefjum sínum og í jarðvegi en skila súrefnishluta sameindarinnar CO2 aftur út í andrúmsloftið.

Ein skógarkolefniseining samsvarar einu tonni af koltvísýringi (CO2) í andrúmsloftinu sem bundið er í skógi.

Til að jafna losun á einu tonni af CO2 þarf því að telja fram eina skógarkolefniseiningu.

Til að slíkar einingar geti orðið til þarf að rækta nýjan skóg, fá kolefnisbindinguna vottaða og skráða í Loftslagsskrá Íslands. Einingarnar eru skráðar „í bið“ til að byrja með.

Eftir fimm ár frá gróðursetningu er skógurinn metinn til að sjá hvort hann sé á réttu róli og muni binda það sem til er ætlast. Með óháðri vottun eru þessar úttektir staðfestar og þar með verða skógarkolefniseiningarnar fullgildar.

Tíu árum seinna er skógurinn fyrst mældur og kolefnisbinding staðfest og vottuð. Þegar skógarkolefniseiningar eru notaðar til jöfnunar á losun er ekki hægt að nota þær aftur.

DEILA